„Vonumst til að geta tekið við öllum sem vilja koma til að njóta veðurblíðunnar“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. júl 2025 10:37 • Uppfært 11. júl 2025 10:38
Spáð er yfir 20 stiga hita á Austurlandi nær hvern dag eins langt og veðurspár ná. Um leið eykst aðsókn á tjaldsvæði en rekstraraðili segir að þau taki lengi við.
„Það er mikið haft samband núna og spurt hvort það sé ekki örugglega laust,“ segir Heiður Vigfúsdóttir sem rekur tjaldsvæðið á Egilsstöðum.
Samkvæmt útileguveðurspá veðurþjónustunnar Bliku, þar sem hægt er að raða tjaldsvæðum landsins í röð eftir hversu hlý og þurr veðurspá hvers þeirra er fyrir tiltekinn tíma, verður besta útileguveðrið um helgina á Fljótsdalshéraði.
Blika gerir ráð fyrir að hitinn á Egilsstöðum nái 20 gráðum hvern dag til og með mánudegi og lengur verði gott veður en von er á hlýju lofti úr Evrópu eftir helgina. „Við virðumst vera sólarmegin í lífinu svo langt sem augað eygir,“ segir Heiður.
Hún segir að fyrirspurnum um pláss hafi farið fjölgandi eftir því sem veðurspáin batnaði. Smá saman hafi síðan fjölgað á svæðinu eftir því sem á vikuna hefur liðið. Hún segir að enn sé eftir talsvert af plássi á Egilsstöðum, fyrir utan önnur tjaldsvæði í kring.
„Við höfum stækkað tjaldsvæðið vegna veðurblíðunnar sem herjar á okkur hvað eftir annað. Við erum því bæði með svæði sem hægt er að bóka á og síðan annað þar sem gamla reglan um að fyrstir koma, fyrstir fá ræður en það tekur lengi við. Við vonumst því til að geta tekið á móti öllum sem vilja koma til okkar og njóta veðursins,“ segir Heiður.
Mynd úr safni.