Vopnafjarðarskóli setur sér viðmið um fjarvistir nemenda

Fjarvistir nemenda við Vopnafjarðarskóla hafa aukist mikið síðastliðin ár og við því ætla skólayfirvöld að bregðast strax næsta vetur.

Skólastjóri skólans, Sigríður Elva Konráðsdóttir, kynnti sérstök viðmið og aðgerðir skólans í þessu skyni fyrir fjölskyldunefnd Vopnafjarðarhrepps fyrir skömmu og þar hugmyndirnar samþykktar samhljóða.

Í grunninn eru viðmiðin þau sömu og skólar í Fjarðabyggð og Múlaþingi hafa notast við um áraraðir.

Skrefin fimm

Það kerfi felur í sér ein fimm skref og hefst á samtali umsjónarkennara við foreldra ef barn er frá skóla í sjö til níu daga. Séu fjarvistir tíu til fimmtán dagar skal boðað til fundar með forsjáraðilum og ræða ástæðurnar en ef um lengri tíma er að ræða koma skólastjórnendur að málum og hugsanlega kallaðir til fleiri sérfræðingar til að finna lausnir. Síðasta úrræðið, ef ekki næst árangur, er að tilkynna skólasókn til barnaverndaryfirvalda.

Margvíslegar ástæður

Aðspurð um ástæður aukinna fjarvista barna úr skólanum segir Sigríður þær af margvíslegum toga og í tilfellum ósköp eðlilegar eins og þegar um veikindi sé að ræða. Raunin sé hins vegar að á Íslandi, ólíkt því sem gerist víða erlendis, séu engar formlegar reglur um fjarvist barna úr skólum.

„Við erum í miklu samstarfi í skólamálum við Múlaþing og bæði þar og í Fjarðabyggð hefur verið unnið í þessu skyni eftir ákveðnum viðmiðum vegna fjarvista. Þau viðmið tökum við svo upp næsta haust og ég mun verða í sambandi við foreldra vegna þessa þegar þar að kemur. Ég held að það sé jákvætt að hafa skýran ramma í þessu ekki síður fyrir foreldra og forráðamenn en okkur kennara og skólastjórnenda.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.