Skip to main content

Vopnfirðingar á leið í Norðurlandakeppni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. feb 2022 15:23Uppfært 07. feb 2022 15:23

Keppnisliðið Dodici úr Vopnafjarðarskóla gerði sér lítið fyrir og sigraði hina árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST® LEGO®.

Keppnin fór fram í streymi um liðna helgi og með sigrinum tryggðu Vopnfirðingarnir sér þátttökurétt í Norðurlandakeppni FIRST® LEGO® sem fram fer í Noregi í næsta mánuði.

Alls tóku níu grunnskólar landsins þátt í keppninni þetta árið en hún fór nú fram í streymi gegnum netið en er alla jafna haldin fyrir fullum sal í Háskólabíói undir venjulegum kringumstæðum. Þemað að þessu sinni tók mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en sem fyrr var keppt í fjórum mismunandi þáttum: liðsheild, forritun og hönnun, nýsköpun og loks vélmennakappleik.

Fyrir sigurinn fékk Dodici ekki einungis þátttökurétt á Norðurlandamótinu heldur og stóran bikar úr legókubbum, 250 þúsund króna verðlaunafé og legóþjark frá Verkfræðingafélagi Íslands.

Mynd: aðsend mynd af sigurliðinu Dodici