Skip to main content

Vopnfirðingar óttast að hærri veiðigjöld hvejti til hagræðingar í sjávarútvegi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. apr 2025 13:49Uppfært 09. apr 2025 13:00

Meirihluti hreppsráðs Vopnafjarðarhrepps lýsir áhyggjum af því að náttúrulega ótryggt umhverfi uppsjávarveiða í bland við auknar álögur af þeim geti fælt Brim frá mikilvægum fjárfestingum á svæðinu. Það gæti aftur haft áhrif á búsetuskilyrðum þar.


Þetta kemur fram í umsögn Vopnafjarðarhrepps við drög ríkisstjórnarinnar um breytingar á veiðigjöldum. Samkvæmt drögunum er gert ráð fyrir auknum álögum á kolmunna, norsk-íslenska síld og sérstaklega makríl sem eru uppsjávartegundir.

Í umsögn Vopnafjarðarhrepps kemur fram að um 90% af lönduðum og unnum afla á staðnum séu uppsjávartegundir. Þá komi 30% af útsvarstekjum sveitarfélagsins beint frá fiskvinnslu. Það þýðir að Vopnafjörður er í hópi þeirra byggða sem mest treysta á sjávarútveg.

Óttast að hærra gjald grafi undan vilja til uppbyggingar


Hreppurinn undirbýr nú framkvæmdir við höfnina sem samanlagt kosta um einn milljarð króna sem skiptist milli ríkis og sveitarfélags. Framkvæmdunum var seinkað eftir loðnubrest í fyrra og aftur síðasta haust eftir vísbendingar um að litla loðnu yrði að fá í ár.

Framkvæmdirnar voru áformaðar í tengslum við breytingar Brims en fyrirtækið hefur einnig í ljósi loðnubrests frestað þeim. Í umsögninni kemur fram að Brim hafi áformað stækkun og endurnýjun fiskiðjuvers og bræðslu auk stækkunar frystigeymslu sem séu framkvæmdir upp á 8-12 milljarða króna.

Vopnfirðingar hafa því áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda á sama tíma og veiði á uppsjávarveiðum verði ótryggari geti sett áform Brims í hættu og hvatt til frekari hagræðingar eða sameiningar í sjávarútvegi. Það gæti aftur komið illa niður á Vopnafjarðarhreppi og búsetuskilyrðum þar.

Af hverju munar svona miklu á makrílverðinu á Íslandi og í Noregi?


Umsögn Brims sjálfs hverfist fyrst og fremst um verðmyndun á makríl en í frumvarpinu er lagt til að veiðigjöldin miði við verð í Noregi. Brim bendir á að samanburðurinn sé skakkur því Norðmenn geti veitt makrílinn síðar þegar hann sé orðinn verðmætari auk annars í veiðum og vinnslum sem bjagi samanburðinn enn frekar. Þá er einnig komið inn á að sífellt lengra hafi orðið fyrir íslensk skip að sækja makrílinn.

Sjómannasambandið ræðir einnig verðmuninn hérlendis og í Noregi og bendir á að íslenskar vinnslur hafi greitt hærra verði til erlendra uppsjávarveiðiskipa en sinna eigin. Sambandið kallar því eftir opinberri rannsókn á muninum.

Alþýðusambandið telur einnig rétt að skoða þessa verðlagningu. Bæði samtökin hvetja þó til þess að áhrif á smærri útgerðir og fiskvinnslur verði skoðaðar auk þess sem ASÍ hvetur til þess að hluti auðlindagjaldsins verði skilinn eftir í þeim byggðum þar sem gjaldið sé greitt.

Aftur umsagnafrestur síðar


Frestur til að skila inn athugasemdum við frumvarpsdrögin rann út síðasta fimmtudag. Aðeins var gefin rúm vika til umsagnar og er það gagnrýnt af svæði sveitarfélögum og útgerðum. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa lýst yfir að þau muni skila ítarefni með útreikningum síðar. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa svarað því til að aftur gefist frestur til að senda inn umsagnir þegar frumvarpið verði tekið til meðferðar á Alþingi.

Á þessum tíma bárust þó 115 umsagnir, misígrundaðar og efnismiklar. Fjarðabyggð sendi inn umsögn sem byggði á ályktun bæjarráðs frá í síðustu viku þar sem meirihlutinn lýsti miklum áhyggjum af samdrætti í fjárfestingum og þjónustu. Bæði minni- og meirihluti gagnrýndu að ekki væri gerð sérstaklega grein fyrir áhrifum á einstök sveitarfélög.

Minnihlutinn segir stórútgerðina hafa rústað sjávarútvegi í Múlaþingi


Það er einnig gert í umsögn meirihluta byggðaráðs Múlaþings, með stuðningi áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, sem byggir á ályktun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Þar segir að hækkun gjaldanna hafi ekki bara áhrif á útgerðarfyrirtækin heldur líka sveitarfélögin.

Rétt er að taka fram að fulltrúar Austurlistans og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, greiddu atkvæði gegn bókuninni. Í þeirra bókun er velt upp spurningunni hvort rétt hafi verið að skila inn umsögn þar sem áhrifin á þann sjávarútveg sem stundaður er innan Múlaþings séu það lítil.

„Þar sem stórútgerðin hefur ítrekað rústað sjávarútvegsstarfsemi í sjávarplássum Múlaþings er erfitt að sjá hvata sveitarfélagsins til þess að leggjast gegn því að sama útgerðin greiði sanngjarnt gjald til innviðauppbyggingar landsins. Það hljómar eins og pólitískur forarpyttur,“ segir þar.

Frítekjumark sem engu skiptir


Samtök smærri útgerða (SSÚ) benda á að áhrifin leggist hvað þyngst á litlar og meðalstórar útgerðir sem treysti á bolfisk, sérstaklega þær sem séu í krókaaflamarkskerfi. Þær byggi afkomu sína á ýsu og þorski en einkum á þorskinn sé áformuð talsverð hækkun. Þetta leiði til samþjöppunar og áhrifa á minni byggðir.

Samtökin telja að hækkun frítekjumarks hafi engin áhrif. Þau vara líka við að umræðan um íslenskan sjávarútveg snúist nú alfarið um stórútgerð og strandveiðar þegar allt í kringum landið séu minni útgerðir sem geti farið illa út úr boðuðum breytingum.