Skip to main content

Vopnfirðingar ræða sameiningarmál

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. feb 2022 14:08Uppfært 10. feb 2022 14:09

Boðað hefur verið til íbúafundar á Vopnafirði í kvöldi þar sem rætt verður um mögulega sameiningakosti hreppsins. Oddviti sveitarstjórnar rétt að taka umræðuna þótt ekkert hafi verið ákveðið um næstu skref.


Á fundinum í kvöld verður farið yfir stöðu hreppsins og því velt upp hvort rétt sé að hefja sameiningarviðræður við annað eða önnur sveitarfélag.

Fundurinn er hluti af vinnu sem hreppsnefnd ákvað í fyrra að ráðast í. „Okkur var bent á að það væri hægt að fá styrk úr Jöfnunarsjóði í vinnu sem sem þessa. Það stefnir í frekari sameiningar sveitarfélaga miðað við þau skilaboð sem borist hafa frá ríkinu,“ segir Íris Grímsdóttir, oddviti sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps.

Vorið 2018 var gerð könnun á Vopnafirði og fleiri sveitarfélögum sem leiddi síðan af sér sveitarfélagið Múlaþing. Þá sögðust tæp 60% Vopnfirðinga enga sameiningu vilja en hægt var að velja eða nefna aðra kosti. Oftast kom upp sameining við Langanesbyggð.

Íris segir að þessar niðurstöður hafi ekki orðið til þess að slá umræðu um sameiningu Vopnafjarðar út af borðinu. „Þessi niðurstaða var ekki alveg nógu afgerandi. Mögulega eru einhverjir sem sjá eftir að hafa ekki farið í viðræðurnar, þótt þeir hefðu ekki verið fylgjandi sameiningunni. Meðal annars vegna þessa ákváðum við að láta vinna þessi mál fyrir okkur.“

Í verkið var fengin RR ráðgjöf, sem meðal annars hélt utan um sameiningarferlið sem varð að Múlaþingi. Búið er að halda tvo nefndarfundi með Vopnfirðingum. Starfsmenn RR munu leiða fundinn í kvöld, skýra frá fyrri vinnufundum og og kynna greiningar sínar á sameiningarkostum.

RR ráðgjöf mun síðar skila niðurstöðum til sveitarstjórnar. Íris segir að þá verði lagst yfir næstu skref, enn hafi ekkert verið ákveðið um frekari viðræður. „Þetta er fyrsta skrefið. Sameiningarkostir Vopnafjarðarhrepps hafa ekki verið listaðir upp áður af alvöru.“

Fundurinn hefst klukkan 20:00 og verður haldinn í fjarfundi.