Skip to main content

Vopnfirðingarnir stóðu sig vel í Lego League

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. mar 2022 10:08Uppfært 15. mar 2022 09:55

Hópur nemenda úr sjöunda og áttunda bekk Vopnafjarðarskóla undir keppnisnafninu Dodici gerði góða ferð á First Lego League keppninni sem fram fór í Álasundi í Noregi um helgina. Náðu þau 19. sætinu af 46 liðum alls.

Keppnin atarna gengur í grunninn út á að kynna vísindi, tækni, verk- og stærðfræði fyrir krökkum og unglingum frá fjögurra til sextán ára aldurs með því að gefa þeim verkefni sem tekur með einum eða öðrum hætti til allra þessara þátta. Stór þáttur í því er hönnun og smíði smærri vélmenna sem leyst geta hinar ýmsu þrautir.

Verkefni Dodici fjallaði um umhverfisvæna orkugjafa í vöruflutningum og tengdu nemendurnir verkefnið við sjávarútvegsfyrirtækið Brim. Hluti þess var hönnun og forritun vélmennis en keppt var á sérstöku þrautaborði í þremur mismunandi lotum. Tókst Dodici vel upp með verkefnið og náðu 19.- 20. sætinu á endanum en 46 lið tóku alls þátt.

Sólrún Dögg Baldursdóttir, kennari og einn fylgdarmanna hópsins, skýrði frá góðum árangrinum og þakkaði öllum sem að komu.

Að baki liggur mikil vinna auk þess sem Dodici er eina liðið sem ekki gat flutt verkefnin á sínu móðurmáli. Þessi ferð hefði ekki getað orðið að veruleika nema fyrir samstöðu og stuðning styrktaraðila og fyrir það eru allir sem að verkefninu koma mjög þakklátir. Dodici þakkar kærlega fyrir sig.

Mynd: Frá kynningu Dodici á verkefninu í Álasundi. Mynd Sólrún Dögg Baldursdóttir