Vorboði Borgfirðinga mættur í fjörðinn
Það góð og gild ástæða fyrir að vorboði Borgfirðinga margra sem og hluta annarra Austfirðinga er lundinn en ekki lóan. Lundinn er nefninlega oft á tíðum töluvert fyrr á ferð en hinn landsþekkti vorboði lóan austanlands. Það er raunin þetta árið líka.
Þó ekki hafi neinir lundar enn komið sér fyrir í hinum vinsæla Hafnarhólma til sumarsetu er allnokkur fjöldi þeirra mættur í Borgarfjörðinn að sögn Öldu Marínar Kristinsdóttur, fulltrúa sveitarstjóra á Borgarfirði eystra.
Fyrst varð þeirra vart seint í síðustu viku og nú er fjöldinn töluverður sem hvílir lúna vængi á haffletinum í firðinum.
Þetta vissulega nokkuð snemmt fyrir lundann sé litið til sögunnar langt aftur í tímann en hin síðari ár hefur hann þó verið að gera vart við sig á þessum slóðum fyrstu eða aðra viku aprílmánaðar svo koma hans í síðustu viku er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi.
Hvað lóuna sjálfa varðar er vandi um að segja því Austurfrétt hefur ekki fregnað staðfesta komu hennar í fjórðunginn austfirska það sem af er. Hins vegar var birt mynd af lóu í íbúahóp austanlands í fyrradag sem gaf til kynna að hún hefði numið land í Reyðarfirði en það ekki fengist staðfest.
Ólíkt flestum fuglum heldur lundinn sig ekki á landi að vetrarlagi heldur undir sér þann tíma að mestu úti á reginhafi. Mynd Borgarfjörðureystri.is