Yfir 50 áhersluatriði heimastjórnar Djúpavogs næstu árin
Ljúka þarf deiliskipulagi við Hammersminni, tengja þéttbýlið mun betur með göngustígum, endurbyggja fjölmargar götur sem og endurbæta alla aðstöðu fyrir sorpmóttöku.
Ofangreint eru örfá þau atriði sem heimastjórn Djúpavogs hefur skráð niður sem sín helstu áhersluatriði á Djúpavogi næstu fjögur árin; kynnt fyrir íbúum og þegar komið áleiðis til viðkomandi ráða Múlaþings til yfirlegu. Alls eru áhersluatriðin vel yfir fimmtíu talsins á ellefu blaðsíðum.
Áhersluatriðin tengjast fjárhagsáætlunargerð Múlaþings árin 2026 til 2029 en langflestar áherslur heimastjórnarfólks tengjast skipulags-, bygginga- og umhverfismálum þó bætt aðstaða og aukin þjónusta sé einnig hátt skrifuð.
Stóru atriðin í skipulagsmálum
Leggja þarf áherslu á að vinnu við heildarsýn og umhverfishönnun miðsvæðis á Djúpavogi. Miðsvæðið og tengd svæði verða að geta sinnt umferð íbúa og ferðamanna. Í því sambandi þarf að bæta við göngustígum inn á skipulag og í framkvæmd, bæði innan og utan þéttbýlis. Gera þarf ráð fyrir góðri gönguleið meðfram Voginum, frá trébryggju og alla leið að Langatanga utan við þéttbýlið. Ljúka þarf allri deiliskipulagsgerð við Hammersminni ásamt því að leggja drög að fleiri íbúðasvæðum í vinnu við nýtt Aðalskipulag.
Byggja þarf töluvert
Að mati heimastjórnarinnar er ekki seinna vænna að þarfagreina og frumhanna viðbyggingu við Grunnskóla Djúpavogs auk þess sem þörf sé komin á viðbyggingu við Neistahúsið. Ástæða sé til að koma upp framtíðarhúsnæði undir félagsmiðstöð fyrir börn og unglinga og yfirbygging yfir sparkvöllinn myndi tryggja mun betri nýtingu en nú er.
Stígar og og tengingar
Mjög skortir á að nógu góðar tengingar séu milli svæða í þéttbýlinu og leggur heimastjórnin til fjórtán hugmyndir til að bæta þar úr. Þar kannski helst tengingu frá íþróttasvæði að Hammersminni með tengingu við leikskólann. Tengja þarf Markarland við Kamb, Mörk og Brekku og koma upp göngustíg meðfram Djúpavoginum frá trébryggju að Sigmundarskúrum og þaðan áfram að Langatanga.
Götur margar illa farnar
Æði margar götur í þorpinu þarfnast orðið endurbyggingar að mati heimastjórnarinnar sem telur brýnt að fara í það verk áður en staðan versnar enn frekar. Ekki síður sé brýnt að klára slitlag, lýsingu og gangstéttar þar sem nýframkvæmdir fara fram. Endurbyggja þarf og breikka gangstéttar meðfram flestum götum bæjarins og einnig sé tími til kominn að yfirfara götulýsingu í heild sinni og lagfæra eftir þörfum.