Yfir hundrað keppendur á Austurlandsmótinu í skíðaíþróttum
Það féll aðeins í skuggann á fjölmennri og velheppnaðri fjallaskíðahátíðinni Austurland Freeride Festival í Oddsskarði um helgina en á sama tíma á sama staðnum fór fram Austurlandsmót sem Skíðafélag Fjarðabyggðar (SFF) bar hita og þunga af að halda.
Aðstæðurnar hefðu ekki getað verið betri liðna helgi að sögn Garðars Eðvalds Garðarssonar, formanns SFF, en heildarfjöldi keppenda að þessu sinni fór vel yfir hundrað manns. Skíðafærið aldeilis ágætt, mikið líf í fjallinu og sólin lét ekki sitt eftir liggja nánast alla helgina.
„Langflestir keppendur voru frá okkar eigin skíðafélagi þó allnokkrir hafi komið lengra að. Þar á meðal hópur krakka frá Mývatni sem kom sérstaklega til að prófa að vera með. Allt gekk þetta mjög vel enda vel undirbúið af hálfu fjölda sjálfboðaliða í félaginu okkar.“
Þó Austurlandsmót sé vissulega stór viðburður er nú þegar hafin undirbúningur að tveimur öðrum stórum mótum sem SFF heldur utan um þegar líða fer á mánuðinn. Þar annars vegar Atomic Cup dagana 25. og 26. mars og helgina eftir það, 28. til 30. mars, fer sjálft Skíðalandsmót Íslands fram í brekkum Oddsskarðsins.
„Það má segja að maður sé vakinn og sofinn yfir þeim mótum og þá kannski sérstaklega Skíðalandsmótinu en þá er von hingað austur á öllu besta skíðafólki landsins svo það er sannarlega ástæða fyrir skíðaáhugafólk að taka þá helgina frá.“
Hluti keppenda SFF á Austurlandsmótinu um liðna helgi en keppendur komu víða að og nokkrir alla leið úr Mývatnssveitinni. Mynd Aðsend