Yfirfara grunsamlega kalda mælingu
Sérfræðingar Veðurstofu Íslands búa sig nú undir að staðfesta eða afsanna mögulegt nýtt mögulegt íslenskt kuldamet. 41 gráðu frost var skráð á Brú á Jökuldal nú klukkan átta í morgun.
Frostið á Brú var komið í yfir 20 gráður á mælinum upp úr miðnætti, en duglega bætti í með morgninum, klukkan sjö voru 33,7 gráður og 40,9 gráður klukkan átta í morgun.
Hjá vakt Veðurstofu Íslands fengust þær upplýsingar að frostið þætti grunsamlega mikið, þar sem slíkar tölur sæjust ekki á mælum í nágrenninu.
Þannig sýnir mælir á Jökuldal -14, mælar í Möðrudal og Grímsstöðum aðeins meira og á Mývatni eru rúmlega 20 gráðu frost. Nánast eðlisfræðilega ómögulegt mun vera að svo mikið frost sé jafn staðbundið og þarna er gefið til kynna.
Þess vegna búa sérfræðingar Veðurstofunnar sig undir að fara betur yfir gögn af Austurlandi, þar til er mælingunni tekið með „miklum fyrirvara.“
Mesta frost sem mælst hefur á Íslandi var -38 gráður í Möðrudal og Grímsstöðum 21. janúar 1918.
Ábúendur á Brú telja þetta útilokað
Anna Guðný Halldórsdóttir, ábúandi á Brú, segir í samtali við Austurfrétt að þetta geti ekki verið annað en einhver bilun í mælibúnaði Veðurstofunnar.
„Það getur varla verið raunin. Núna klukkan níu voru mælarnir hjá mér að sýna annars vegar fimmtán gráðu frost og hins vegar tæplega sextán gráðu frost. Ég myndi telja útilokað að frostið hafi farið svo hátt nokkrum tímum fyrr. Að því er mig minnir þá er mesta frost sem mælst hefur hér 26 eða 27 gráður. Ég tel alveg ljóst að hér sé um bilun að ræða.“