Ýmsar athugasemdir við skógræktaráform að Torfastöðum í Vopnafirði

Margháttar athugasemdir eru gerðar af hálfu allnokkurra aðila vegna áforma Yggdrasils um skógrækt á tæplega 200 hektara svæði í landi Torfastaða í Vopnafirði.

Leitað var eftir umsögnum í kjölfar formlegrar óskar Yggdrasils um framkvæmdaleyfi fyrir verkefninu en á fyrrnefndu 200 hektara svæði skal rækta skóg á um 160 hekturum alls. Reiknast fyrirtækinu til að verkefnið muni draga til sín allt að 70 þúsund tonn af koltvísýringi úr andrúmsloftinu á 50 ára binditíma þess.

Alls bárust sex umsagnir og þar vóg hvað þyngst umsögn Umhverfisstofnunar að mati umhverfis- og framkvæmdaráðs Vopnafjarðarhrepps sem hefur í kjölfarið beint því til umsóknaraðilans að endurskoða framkvæmdaáformin með hliðsjón af athugasemdunum.

Í umsögn sinni bendir Umhverfisstofnun (UST) meðal annars á að hluti framkvæmdasvæðisins sé flokkað sem lítt raskað votlendi auk þess sem í nálægð er að finna bæði sjávarfitjar og leirur í Skógarlóni. Slík svæði njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og forðast beri rask á slíkum svæðum nema brýna nauðsyn beri til.

Stofnunin tiltekur einnig að í nálægð við skógræktarsvæðið séu bæði Núpslón og Skógarlón sem bæði eru á C-hluta náttúruminjaskrár. Nauðsynlegt er að fjallað verði um hugsanleg áhrif skógræktarinnar á fjölbreytt dýralífið við bæði lón.

Síðast en ekki síst geldur UST varhug við að plantað verði stafafuru eins og áform Yggdrasils ganga út á. Stafafuran telst til útlendra plöntutegunda en óheimilt er að gróðursetja slíkar plöntur á friðlýstum svæðum eða landslagsgerðum sem njóta sérstakrar verndar. Leggur stofnunin áherslu á að stafafuru verði ekki plantað í eða við votlendissvæði.

Mikilvægt er að stafafuru sé ekki plantað í eða nálægt votlendissvæðum í landinu. Mynd Skógargátt/Jón Ásgeir Jónsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.