Ytri-Álftavík enn ekki selst þrátt fyrir mikla athygli um fimm mánaða skeið
Vafalítið er ein allra sérstæðasta eignin sem verið hefur til sölu í landinu öllu síðastliðna mánuði jörðin Ytri-Álftavík á Víknaslóðum. Þrátt fyrir umtalsverðan áhuga og allnokkur tilboð frá fyrstu stundu hefur engin sala enn gengið í gegn.
Það staðfestir Sigurður Magnússon, fasteignasali hjá INNI á Egilsstöðum, sem hefur haft þessa sérstöku eign á söluskrá síðan snemma í marsmánuði síðastliðnum.
Um er að ræða fallega eyðijörð á hinum merku Víknaslóðum með sína eigin náttúrulegu höfn en alls er jörðin um 90 hektarar að stærð. Aðgengi er þó afar takmarkað og í raun aðeins þangað komist á tveimur jafnfljótum eða af sjó.
Seljendur hafa frá upphafi óskað tilboða í jörðina svo óljóst er hvaða verðmiða eigendur sjálfir hafa í huga. En öllum tilboðum hingað til hefur verið hafnað.
„Þessi eign er áhugaverð fyrir margar sakir og kannski ekki síst fyrir sérstöðu eignarinnar. Þá er ég að tala um staðsetninguna, aðgengi, einangrun og annað slíkt. Eignin hefur sannarlega vakið athygli margra enda erfitt ef ekki ómögulegt að finna samfærilega eign til sölu á landinu. Mig grunar að ástæða þess að eignin hafi ekki selst sé hugsanlega af sömu ástæðu og hún er spennandi kostur; það er að segja erfitt aðgengi og mikil einangrun auk annars.“
Sigurður segir að allnokkur tilboð hafi borist síðustu mánuðina og þar af tvö tilboð nánast fyrstu vikuna sem eignin var auglýst til sölu.
„Ekkert þeirra hefur freistað eiganda nægilega til að samþykkja það þó stundum hafi ekki mikið borið í milli.“
Loftmynd af hluti hinnar fallegu jarðar Ytri-Álftavík sem Hafþór Snjólfur Helgason veitti Austurfrétt góðfúslegt leyfi til notkunar.