Skip to main content

16 stiga hiti um miðnætti

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. des 2021 08:11Uppfært 18. des 2021 08:15

Dægurhitamet var slegið á Dalatanga i gær þegar hitinn fór í rúmar 16 gráður þar. Víða annars staðar á Austurlandi varð býsna hlýtt í stutta stund, miðað við árstíma.


Greint var frá hitametinu á Mbl.is þar sem haft er eftir Haraldi Ólafssyni veðurfræðingi að hnúkaþeyr úr suðvestri hafi skapað þessar aðstæður.

Úr gögnum Veðurstofunnar má sjá hvernig hitinn rýkur upp rétt um miðnætti milli 16. og 17. desember. Á Dalatanga fór hann í 16,1 gráðu og 16 gráður á Eskifirði. Þetta er mesti hiti sem mælst hefur þann 17. desember á landinu.

Hlýindunum fylgdi strekkingsvindur. Á Eskifirði mældust 25 m/s vindhviður og 20 m/s á Dalatanga. Hin miklu hlýindi og vindur stóðu aðeins í stutta stund. Hlýtt hefur þó verið á Austurlandi síðustu daga og mikil hláka. Henni hefur víða fylgst flughálka á vegum og göngustígum.

Svipaðar aðstæður sköpuðum á fleiri stöðum eystra. Þannig fór hitinn upp í 14 gráður í Neskaupstað, á Borgarfirði og Seyðisfirði auk þess sem hann var um 12 gráður á Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Berufirði.

Mesti hiti sem mælst hefur í desember er 19,7 gráður, árið 2019.