Skip to main content
Meðalbiðtími eftir að komast að á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði árið 2023 reyndist vera 246 dagar alls eða rúmir sjö mánuðir. Mynd HSA

Rúmlega sex mánaða meðalbið eftir plássi á hjúkrunarheimili í fyrra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. nóv 2025 16:04Uppfært 20. nóv 2025 16:14

Meðalbiðtími eftir plássi á dvalar- og hjúkrunarheimilum á Austurlandi á síðasta ári reyndist vera tæplega 202 dagar eða vel rúmlega sex mánuðir samkvæmt gögnum Embættis Landlæknis. Meðalbiðtíminn lækkar þó töluvert sé hjúkrunardeild Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað tekin með í reikninginn en þá fer tíminn niður í rúmlega 164 daga yfir línuna.

Embætti Landlæknis tekur árlega saman gögn um biðtíma fólks eftir plássi á hjúkrunarheimilum landsins og einnig meðalfjölda þeirra sem bíða í röðinni ár hvert á hvert heimili fyrir sig.

Í gögnunum kemur í ljós að biðtími var afar misjafn á milli þeirra fjögurra austfirsku hjúkrunarheimila sem þau ná yfir frá árinu 2020 til 2024. Þar um að ræða hjúkrunarheimilin Fossahlíð á Seyðisfirði, Dyngju á Egilsstöðum, Hulduhlíð á Eskifirði og Uppsali á Fáskrúðsfirði. Reyndar með þeim formerkjum að tölurnar fyrir Uppsali árið 2024 liggja ekki fyrir og engar tölur finnast fyrir Sundabúð á Vopnafirði síðan árið 2019.

Lengri bið á öllum heimilunum

Á þessum fimm ára tímabili hefur meðalbiðtími fólks sem vill komas að á Dyngju á Egilsstöðum lengst úr 199 dögum í 270 daga eða um 36% lengur. Í Fossahlíð á Seyðisfirði lengdist meðalbiðtíminn úr 179 dögum í 258 daga eða um 44%. Eftir plássi á Hulduhlíð á Eskifirði árið 2020 þurftu umsækjendur að bíða í 150 daga en 164 daga á síðasta ári sem er 8% lengri bið en fimm árum áður. Allra verst er hve biðtími að Uppsölum hefur lengst en tölfræði fyrir það hjúkrunarheimili ná aðeins til ársins 2023. Frá 2020 til þess tíma lengdist biðin að meðaltali frá 135 dögum í 246 daga. Einu tölurnar í gögnunum yfir Sundabúð á Vopnafirði sýna að árið 2019 var meðalbiðin þar 190 dagar.

Landlæknir listar einnig hjúkrunardeildina í Neskaupstað með hjúkrunarheimilunum einhverra hluta vegna í gögnum sínum þó það sé annars konar stofnun. Þar var meðalbiðtíminn á síðasta ári aðeins 48 dagar sem verður að teljast afar góður árangur því ári áður, 2023, var biðtíminn 150 dagar.