Skip to main content

20 ný smit síðustu tvo daga

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. des 2021 17:25Uppfært 31. des 2021 17:25

Tuttugu ný Covid-smit hafa greinst í sýnum sem tekin hafa verið á Austurlandi síðustu tvo daga. Aldrei hafa greinst smit í jafn mörgum póstnúmerum sama daginn.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands sendi frá sér í hádeginu.

Alls voru tekin um 200 sýni á Vopnafirði, Egilsstöðum og Reyðarfirði í gær og fyrradag. Úr þeim hafa verið staðfest 20 smit. Ekki er ljóst hve mörg smit greindust hvorn dag því mikið álag hefur verið á veirufræðideild Landsspítalans og töf á greiningu.

Aldrei hafa greinst smit í jafn mörgum póstnúmerum á sama tíma eystra. Samkvæmt Covid-korti RÚV greindust smit í gær á Egilsstöðum, Vopnafirði, Stöðvarfirði, Reyðarfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Staðan eystra er því að þyngjast, líkt og á landsvísu.

Sýni voru tekin meðal íbúa og starfsmanna hjúkrunarheimilisins Sundabúðar á Vopnafirði í gær. Öll þau sýni voru neikvæð. Áfram gætu bæst við smit þar því fjöldi fólks er þar í sóttkví. Seinni sýnataka hjá þeim hópi verður 2. janúar.

Samkvæmt Covid.is eru 32 skráðir í einangrun á Austurlandi og 115 í sóttkvi.

Aðgerðastjórn hvetur Austfirðinga til áframhaldandi samstöðu við að hefta útbreiðslu veirunnar. Minnt er á persónulegar sóttvarnir, aðgæslu í margmenni og halda sig heima ef einkenna verður vart og fara í PCR-sýnatöku.

Engin sýnataka er eystra á morgun, nýársdag. Á sunnudag, 2. janúar, er opið á Reyðarfirði frá klukkan 9-10, á Egilsstöðum 11-12 og Vopnafirði 13-13:30.