Kerfið klikkaði: Nova biður viðskiptavini afsökunar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. sep 2014 15:52 • Uppfært 13. sep 2014 15:55
Farskiptafyrirtækið Nova hefur beðið viðskiptavini í Fjarðabyggð afsökunar á því að kerfi fyrirtækisins klikkaði í gær þannig að sumir viðskiptavinir þess fengu ekki viðvörun frá almannavörnum sem senda var í smáskilaboðum.
„Um er að ræða tvö kerfi sem senda þessi skilaboð, en því miður varð bilun í öðru þeirra sem orsakaði að ekki allir viðskiptavinir okkar á svæðinu fengu skeyti," segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova.
Austurfrétt greindi fyrr í dag frá því að skilaboð almannavarna vegna brennisteinsmengunar í Fjarðabyggð hefðu ekki borist öllum farsímanotendum.
Liv segir að bilunin hafi komið strax í ljós og þegar í stað hafist handa við lagfæringu.
„Þetta er vissulega mál sem við tökum mjög alvarlega og munum gera allt sem við getum til að tryggja öryggi skilaboða sem þessara," segir hún.
„Ég vil nota tækifærið og koma á framfæri fyrir hönd Nova afsökun til viðskiptavina vegna þessa."