Skip to main content

„Af hverju þarf stöðugt að reyna að gera lífið erfiðara og leiðinlegra?“ 

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. jan 2024 10:22Uppfært 12. jan 2024 11:04

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir vera orðinn „hundleiður“ á því að vegið sé að þeim litlu þægindum sem eigi að fylgja því að vera Íslendingur.

Þetta skrifar Sigmundur í færslu á Facebook í tilefni af áformum um upptöku bílastæðagjalda við Egilsstaðaflugvöll og Akureyrarflugvöll. Austurfrétt greindi frá áformunum í gær.

Sigmundur segir að sér sé meinilla við áformin. Það sé ekki bara vegna þess að í þeim felist ójafnræði landabyggðar gagnvart Reykjavík heldur, eins og kemur fram í upphafi fréttarinnar, vegna þess að hann sé orðinn hundleiður á því að endalaust sé vegið að þeim litlu þægindum sem eigi að fylgja því að vera Íslendingur.

„Af hverju þarf stöðugt að reyna að gera lífið erfiðara og leiðinlegra í nafni einhvers konar nútímavæðingar,“ spyr Sigmundur í færslu sinni. Hann rekur síðan að fyrir nokkrum árum hafi verið tilkynnt að hafin yrði gjaldtaka við Reykjavíkurflugvöll á þeim forsendum að þar þyrfti að malbika plan og bæta þjónustu. „Sem betur fer hefur það ekki gengið eftir út af einhverjum kerfisflækjum (sem geta stundum komið sér vel).“

Sigmundur segir að nóg land sé til undir bílastæði við flugvelli á landsbyggðinni. Íslendingar vilji vera frjálsir og það sé einn af kostum þess að búa hér á landi. „Geta t.d. lagt bíl án þess að þurfa að skrá persónuupplýsingar í eitthvað app. Svo ég tali nú ekki um, eins og nú er boðað, að eitthvað rafrænt eftirlitskerfi sé notað til að fylgjast með og refsa fólki fyrir að mæta á flugvöllinn að sækja vin sem þurfti að bíða í 10 min. eftir töskunni.
Ísland hefur séð miklar framfarir undanfarna áratugi en flóknara líf, aukið eftirlit og gjaldheimta teljast ekki til framfara í minni bók,“ skrifar Sigmundur Davíð.