Áfallahjálp stór hluti almannavarna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. maí 2023 18:21 • Uppfært 30. maí 2023 18:27
Íslendingar kynntust fyrst áfallahjálp af alvöru eftir snjóflóðin á Vestfjörðum árið 1995. Hún er nú orðin stór hluti almannavarnakerfisins. Erfiðir atburðir ýfa oft upp gömul sár sem eftir er að fást við eins og reyndin hefur verið á Austurlandi í bæði skriðuföllunum á Seyðisfirði 2020 og snjóflóðunum í Neskaupstað í mars.
„Þrátt fyrir að Ísland sé best í heimi þá getur náttúran verið óblíð og hér hafa hamfarir riðið yfir og ótrúlega margt gerst. Þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað árið 1974 þá var ekkert rætt um það. Það var bara fjöldaútför, tólf manns og eftir útför þá var bara haldið áfram og ekkert verið að dvelja við fortíðina,“ sagði Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur á Austurlandi, á geðheilbrigðisþingi sem Tónleikafélag Austurlands og Heilbrigðisstofnun Austurlands stóðu fyrir í samvinnu við fleiri nýverið.
Prestarnir á Austurlandi eru hluti af samráðshóp um sálræna aðstoð sem virkjaður er í náttúruhamförum. Þar inni eru einnig fulltrúar frá Rauða krossinum, HSA og félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Sigríður tók nokkur dæmi um eftirköst áfalla á fólk síðar meira. Til dæmis að séra Páll Þórðarson, þá nývígður prestur sem þjónaði Norðfirði árið 1974, hafi látist úr krabbameini langt fyrir aldur fram fjórum árum síðar. „Fjölskyldan hans er algjörlega sannfærð um að þetta óuppgerða áfall hafi verið það sem dró hann til dauða.“
Samveran hjálpar til
Sigríður Rún býr á Seyðisfirði og hefur þjónað sem prestur þar. Hún sagði aurskriðurnar í bænum í desember 2020 hafa hreyft við ýmsum minningum.
„Við fundum að að um allt landið var fólk með sín óuppgerðu mál. Við fundum það líka í fjöldahjálparmiðstöðinni á Egilsstöðum þegar við komum þangað. Þar var fólk frá Seyðisfirði sem var líka með sín óuppgerðu mál.
Þar sat til dæmis kona sem allt í einu fór bara að endurupplifa þegar hún sem ung móðir var flutt með togara frá Vestmannaeyjum í gosinu í Heimaey. Þegar hún er nýkomin í land þá fær hún þetta frábæra tilboð að átta ára dóttur hennar er boðið að fara til Noregs, sem þótti barnvænt umhverfi, til að hlífa henni fyrir áfallinu. Þetta jók svo á áfall þeirra beggja.
Við fundum það líka að þetta er svona „kollektíft.“ Þegar það verða svona náttúruhamfarir eða svona stór áföll koma fyrir samfélagið, þá skiptir máli fyrir allt samfélagið að taka á því saman. Þannig að samverustundirnar sem fólk átti í fjöldahjálparmiðstöðinni og svo í þjónustumiðstöðinni í Herðubreið voru rosalega mikilvægar.
Það þurfa ekki allir sértæka sálfræðiþjónustu. Flestir þurftu bara að setjast niður með samborgurum sínum og drekka kaffi, í kringum einhverja sem skildu hvernig þeim leið því allir höfðu gengið í gegnum það sama. Að slíkt standi til boða er mjög mikilvægt.
Á Seyðisfirði spruttu líka upp úr grasrótinni svona samfélagsmáltíðir þar sem fólk kom saman og borðaði og þetta hélt áfram nánast alveg fram á sumarið árið eftir.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.