Afhentu undirskriftalista til að mótmælta skólabreytingum í Fjarðabyggð

Starfsfólk úr skólum Fjarðabyggðar afhenti sveitarfélaginu í dag lista með rúmlega 750 undirskriftum þar sem skorað er á bæjarstjórn að hætta við fyrirhugaðar breytingar á skólastofnunum. Enginn kjörinn fulltrúi gat verið viðstaddur afhendinguna.

Undirskriftirnar urðu alls 755, þar af 647 úr Fjarðabyggð. „Við getum ekki annað en verið ánægð með að fólk sé tilbúið að styðja við það sem við erum að gera. Við erum ekki sátt við þessa framkvæmd, sérstaklega ekki hvernig hún er sett fram.

Það er er ekki talað við neinn eða haft neitt samráð. Þess vegna erum við sátt við að fólk sé tilbúið að kvitta undir og krefjast meira sambands,“ segir Þuríður Haraldsdóttir, leiðbeinandi úr Grunnskóla Reyðarfjarðar og ein þeirra sem fór fyrir undirskriftasöfnuninni.

Breytingarnar fela það í sér að skólastofnanir Fjarðabyggðar verða sameinaðar eftir skólastigum. Jafnframt á að leggja niður aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra sérkennslu en ráða í staðinn verkefnastjóra í skólanna auk sérfræðinga til skólaþjónustu Fjarðabyggðar.

Ekki boðleg vinnubrögð


Mótmælin hafa bæði snúist að þessum breytingum á stöðugildum og að ekki hafi verið haft samband við skólasamfélagið í aðdraganda breytinganna. „Þessir stjórnendur eru okkar stoð í gegnum daginn. Þeir sitja ekki og bora í nefið. Að þeir verði fjarlægðir úr skólunum þýðir að við þurfum að bíða eftir að þessi þjónusta komi einhvern tíma og einhvern tíma. Það er ekki að fara að gera sig.

Né heldur að ætla að gera svona stórar breytingar án þess að tala við kóng eða prest. Þetta kom aldrei inn í skólaráð þótt lögum samkvæmt eigi stórar breytingar að gera það. Síðan er okkur ætlað að kenna börnum að lifa í lýðræði. Hvernig ósköpunum – ef þetta eru skilaboðin sem allir fá? Þetta er ekki boðlegt.“

Óska þess að staldrað verði við og leitað sátta


Breytingin var samþykkt á aukafundi bæjarstjórnar þriðjudaginn í síðustu viku. Meirihlutinn klofnaði í atkvæðagreiðslu og féll síðan í kjölfarið. Síðan hafa skólastjórar, foreldrafélög og kennara félög, bæði í Fjarðabyggð og á landsvísu mótmælti. Þuríður segir ekkert samtal hafa átt sér stað við bæjarstjórnina síðustu daga.

„Það hefur ekki verið leitað eftir sambandi við okkur og við höfum ekki leitað eftir því heldur. Við ákváðum strax að fara aðra leið. Kennarasambandið stendur með okkur og talar okkar máli.“

Lísa Björk Bragadóttir, ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar, vonast til að með samtali náist sættir í málinu. „Ég vildi bara óska þess að fólk stoppi aðeins, skoði málinu og fái frekar fram breytingar í sátt við þá sem hag eiga að málinu, kennara og ekki síst foreldra. Að samtalið sé tekið og við vinnum farsæla lausn því það er ekki farsæl lausn þegar skólastarf kemst svona í uppnám.“

Hún segir starfsfólk í skólum íhuga stöðu sína í ljósi málsins. „Ég veit að fólk er búið að skila inn uppsagnarbréfum eða er að rita uppsagnarbréf eða líta í kringum sig.“

Lítilsvirðing að kjörnir fulltrúar mæti ekki


Enginn kjörinn fulltrúi var á svæðinu við afhendingu listanna. Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar voru margir þeirra í ferðum sem löngu voru skipulagðar en ekki náðist samkomulag um annan tíma. „Mér finnst þetta lítilsvirðing. Mér finnst þetta skilaboð frá þeim til okkar um að það sem við höfum að segja skipti ekki máli því það er búið að ákveða allt,“ sagði Þuríður um fjarvistir bæjarfulltrúa.

Starfsfólk Grunnskóla Reyðarfjarðar gekk úr skólanum niður í gegnum bæinn í Molann, þar sem bæjarskrifstofurnar eru. Þar bættist starfsfólk úr fleiri skólum Fjarðabyggðar í hópinn sem og foreldrar.

„Það sagði mér ein móðir hér áðan að barnið hennar vildi kom og segja hvað deildarstjórastaðan í sérkennslunni væri mikilvæg,“ segir Þuríður. „Foreldrar þessara barna vita virkilega um hvað málið snýst,“ bætti Lísa Björk við.

Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála Fjarðabyggðar, tók við listunum fyrir hönd sveitarfélagsins. Hann sagði að listarnir yrðu lagðir fyrir fund bæjarráðs á mánudag. Hann greindi jafnframt frá því að Fjarðabyggð hefði í morgun fengið erindi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu með fyrirspurnum í kjölfar erindis Kennarasambands Íslands til ráðuneytisins þar sem lýst var efasemdum um að breytingarnar standist lög. Hann sagði stefnt á að svara spurningunum sem fyrst.

Leiðrétt: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð að undirskriftir fólks með lögheimili í Fjarðabyggð hefðu verið 547. Þær eru 647.

Fjardabyggd Skolamotmaeli Mars24 0002 Web
Fjardabyggd Skolamotmaeli Mars24 0009 Web
Fjardabyggd Skolamotmaeli Mars24 0012 Web
Fjardabyggd Skolamotmaeli Mars24 0013 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.