Skip to main content

Áform um vatnsverksmiðju á Borgarfirði eystra í biðstöðu vegna Covid

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2021 14:09Uppfært 27. des 2021 14:15

„Það er með þetta eins og ferðaþjónustu og margt annað að Covid hefur breytt öllum forsendum að svo stöddu,“ segir Arngrímur Viðar Ásgrímsson, einn eigenda Vatnworks Iceland, sem lengi hefur áformað byggingu vatnsverksmiðju á Borgarfirði eystri í samvinnu við indverskan aðila.

Verksmiðja þessi, sem skapa á fjögur til átta störf, hefur lengi verið á teikniborðinu eftir að indverskur fjárfestir heillaðist svo af Borgarfirðinum að hann ákvað í samvinnu við heimamenn að koma á fót lítilli vatnsverksmiðju á staðnum. Fjögur ár tók að fá grænt ljós frá leyfisaðilum og hafist var handa við uppbygginguna snemma á þessu ári.

Sú vinna stöðvaðist þó þegar grunnur var kominn að 900 fermetra byggingunni í vor og lítið gerst síðan. Ásgrímur segir Covid-faraldurinn skýra aðgerðarleysið.

„Allar forsendur breyttust með Covid enda óhægt um vik að hefja framleiðslu, sölu og útflutning þegar svo á stendur. Þetta er það sama og gerst hefur með ferðaþjónustuna og marga aðra aðila að faraldurinn hefur sett strik í reikninginn.“

Aðspurður segir Arngrímur ekki búið að slá verkefnið af. Hvenær framhald verði á velti bæði á indverska fjárfestinum og ekki síður hvað gerist varðandi faraldurinn í framtíðinni.