Áfram unnið að því að fjármagna nýjan Axarveg
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2023 13:06 • Uppfært 13. jún 2023 13:07
Enn er verið að reyna að fjármagna framkvæmdir fyrir nýjan veg yfir Öxi. Einhver bið verður eftir veginum ef ekki tekst að ljúka henni. Breytt fjármögnun jarðganga þýðir að hægt verður að bora fleiri en ein göng í einu.
Þetta var meðal þess sem kom fram við kynningu Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra, á drögum að samgönguáætlun 2024-38 í hádeginu í dag.
Axarvegurinn var þar á lista yfir fjögur verkefni, ásamt Hornafjarðarfljóti, Ölfusárbrú og Sundabraut, sem fjármagna á í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.
„Það er verið að vinna að því að koma honum í gang. Hann er annars inn á öðru tímabili ef ekki næst að koma honum fyrr af stað,“ sagði Sigurður Ingi.
Fjarðarheiðargöng næstu göng
Austurfrétt greindi fyrr í dag frá því að Fjarðarheiðargöng væru fyrst á lista í nýrri jarðgangaáætlun en göng áfram þaðan til Norðfjarðar um Mjóafjörð þau sjöundu í röðinni. Fram kom hjá Sigurði Inga að Fjarðarheiðargöngin væru einu göngin sem teldust tilbúin til framkvæmda, annars staðar væri eftir að ljúka hönnun, umhverfismati og fleiru.
Þá eru göng undir Hellisheiði, Lónsheiði og Berufjörð og Breiðdalsheiði á lista yfir fern göng sem skoða þarf nánar. „Þar vantar rannsóknir eða annað til að taka ákvörðun,“ sagði Sigurður Ingi um þann hóp.
Ráðgert er að jarðgöngin 14 í áætluninni komi til framkvæmda á næstu 30 árum. „Jarðgangaáætlunin er til 30 ára en ekki 15 þannig við getum sent skilaboð inn í samfélögin að þau séu á dagskrá, þótt þau séu ekki á áætlun á næstu 5-10 árum.
Gert er ráð fyrir að jarðgöng verði sérstaklega fjármögnuð. Þannig fáist til framkvæmda 12-15 milljarðar sem Sigurður Ingi sagði 3-4 sinnu meira en veitt hefði verið til jarðgangagerðar á ári hérlendis þegar mest hefði verið í gangi. „Með þessu geta verið fleiri en ein, jafnvel þrenn, jarðgöng í vinnslu í einu,“ sagði hann.
Sigurður Ingi sagði jarðgöng lykilþátt í að treysta búsetu en frelsi til búsetu með greiðar samgöngum er eitt af lykilmarkmiðum samgönguáætlunarinnar. Aukið umferðaröryggi er þó yfirmarkmiðið en vinna á því meðal annars með að fækka einbreiðum brúm um 79 á gildistíma áætlunarinnar. Þeim verður útrýmt alfarið af hringveginum.
Langþráð endurbygging flugstöðvarinnar í Reykjavík
Af öðrum framkvæmdum á Austurlandi má nefna Lagarfljótsbrú og Suðurfjarðaveg. Þá samþykkti Alþingi fyrir helgi að taka upp varaflugvallargjald til framkvæmda fyrst og fremst á Egilstöðum, Akureyri og í Reykjavík en um leið losnar um fjármagn fyrir aðra flugvelli.
Sigurður Ingi sagði gert ráð fyrir að gjaldið skilaði 1,2 milljarði strax á næsta ári. Á Egilsstöðum stendur til að byggja upp flughlað og akbraut til að geta tekið við fleiri flugvélum þegar flugvöllurinn í Keflavík lokast og raða þarf upp vélum á Egilsstöðum. Í Reykjavík stendur til að endurbyggja flugstöðina. Sigurður Ingi sagði það „langþráð verkefni fyrir alla Íslendinga.“
Hann sagði framkvæmdaáætlun næstu fimm ára mótast af svigrúmi í fjármálaáætlun hverju sinni. Möguleiki væri á auknum framkvæmdum eða þjónustu, svo sem snjómokstri, ef svigrúm skapaðist til þess með bættri stöðu ríkisfjármála.
Áætlunin í heild sinni er aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda. Umsagnarfrestur um hana er til 31. júlí. Innviðaráðuneytið mun að því loknu fara yfir athugasemdir áður en áætlunin verður fram á Alþingi í haust.