Aftur varað við vestan stormi á Austurlandi
Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Austurland að Glettingi og Austfirði. Gert er ráð fyrir vestan stormi en viðvörnunin tekur gildi annað kvöld (28. jan.) kl. 20 og gildir fram á næsta morgun.
Á Austurlandi að Glettingi er gert ráð fyrir vestan og síðan norðvestan 18-23 m/s og hviður yfir 35 m/s í vindstrengjum ásamt snjókomu. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Afmarkaðar samgöngutruflanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Viðvörunin fyrir Austfirði tekur gildi aðeins síðar eða kl. 21 annað kvöld og stendur aðeins lengur eða til kl. 9 um morguninn eftir. Á Austfjörðum er gert ráð fyrir vestan 20-28 m/s og hviður yfir 35 m/s í vindstrengjum. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Afmarkaðar samgöngutruflanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.