Skip to main content

Annir hjá björgunarsveit Vopnafjarðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. des 2021 20:15Uppfært 28. des 2021 20:18

Björgunarsveitarmenn frá Vopna á Vopnafirði hafa þurft að aðstoða ökumenn á Möðrudalsheiði frá því klukkan tíu í morgun og eru enn ókomnir til byggða.

Það staðfestir Hinrik Ingólfsson, formaður björgunarsveitinnar en töluvert hefur verið að snúast fyrir sveitina í dag vegna veðurfars og mikillar úrkomu en gul veðurviðvörun hefur verið í gildi á Austurlandi í allan dag.

„Ég hef ekki nákvæma tölu á útköllum en það hafa allmargir þurft á okkar aðstoð að halda í dag. Töluvert er um að bílar séu að festa sig og einhverjir hafa ekið útaf líka. Okkar menn fóru fyrst í útkall snemma í morgun og eru enn ókomnir til baka.“

Hinrik segir að færð sé orðin mjög erfið víða en hefur þó fregnað að veghefill sé á leiðinni upp á Möðrudalsheiði til að greiða úr því sem hægt er. Hann veit ekki til þess að slys hafi orðið á fólki.

Mikið hefur snjóað í allan dag um Austurland allt og hvasst verið víða. Margir vegir orðnir þungfærir og um klukkan 19 lokaði Vegagerðin bæði veginum yfir Fjarðarheiði og eins yfir Möðrudal. Vonir standa til að hægt verði að opna að nýju í fyrramálið.

Veðrið er að ganga niður þegar þetta er skrifað en tíma mun taka að ryðja þá vegi sem orðnir eru ill- eða ófærir.