Appelsínugul viðvörun gefin út vegna storms á Suðausturlandi

Búist er við miklu hvassviðri í kvöld og fram eftir morgni á Austfjörðum og Suðausturlandi. Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir veðurspásvæðin á þessum tíma.

„Við reiknum með að aðstæður á svæðinu verði mjög vararsamar. Þetta verður verst frá Öræfajökli austur að Lóni. Þótt algegnt sé að Höfn sleppi vegna landslagsins þar þá er líklegt að þar verði ansi hvasst núna. Á þessu svæði spáum við hviðum yfir 45 m/s og meðalvindhraða um eða yfir 30 m/s.

Veðrið veðrur samt mjög vont allt norður í Berufjörð. Síðan dregur úr vindstyrknum eftir því sem norðar dregur. Við spáum samt allt upp í 25 m/s vindhraða á þessu svæði,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Mikil lægð er á leið framhjá Suðausturlandi og fylgir norðvestanátt sem skapað getur mikið hvassviðri á sunnanverðum Austfjörðum og undir Vatnajökli.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði frá klukkan níu í kvöld til níu í fyrramálið. Á Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi frá klukkan átta í kvöld fram til miðnættis að sú rauðgula tekur við fram til tíu í fyrramálið.

Í lýsingu Veðurstofunnar segir að akstursskilyrði verði hættuleg og ekkert ferðaveður verði á þessum tíma. Búast má við lokunum á vegum. „Svona mikill vindur tekur í alla bíla svo stærðum skiptir ekki máli,“ segir Eiríkur Örn.

Ekki er búist við úrkomu á því svæði sem vindurinn verður mestur en éljagangi norðar. Þar er búist við skafrenningi til fjalla sem truflað geti samgöngur.

Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi til klukkan tvö á morgun. Eins og tímasetningar viðvarananna bera með sér dregur fyrst úr vindi á Austfjörðum en síðast undir Vatnajökli.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi eru íbúar hvattir til að fergja lausamuni og vera ekki á ferðinni meðan veðrið gengur yfir.

Þá hefur Landsnet sent út viðvörun vegna mögulegra rafmagnstruflana. Vegna storms er talin hætta á samslætti lína frá Lómagnúpi austru á Teigarhorn frá miðnætti til níu í fyrramálið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.