Skip to main content

Appelsínugul viðvörun gefin út vegna storms á Suðausturlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. nóv 2021 12:00Uppfært 25. nóv 2021 15:19

Búist er við miklu hvassviðri í kvöld og fram eftir morgni á Austfjörðum og Suðausturlandi. Gular og appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir veðurspásvæðin á þessum tíma.


„Við reiknum með að aðstæður á svæðinu verði mjög vararsamar. Þetta verður verst frá Öræfajökli austur að Lóni. Þótt algegnt sé að Höfn sleppi vegna landslagsins þar þá er líklegt að þar verði ansi hvasst núna. Á þessu svæði spáum við hviðum yfir 45 m/s og meðalvindhraða um eða yfir 30 m/s.

Veðrið veðrur samt mjög vont allt norður í Berufjörð. Síðan dregur úr vindstyrknum eftir því sem norðar dregur. Við spáum samt allt upp í 25 m/s vindhraða á þessu svæði,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Mikil lægð er á leið framhjá Suðausturlandi og fylgir norðvestanátt sem skapað getur mikið hvassviðri á sunnanverðum Austfjörðum og undir Vatnajökli.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Austfirði frá klukkan níu í kvöld til níu í fyrramálið. Á Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi frá klukkan átta í kvöld fram til miðnættis að sú rauðgula tekur við fram til tíu í fyrramálið.

Í lýsingu Veðurstofunnar segir að akstursskilyrði verði hættuleg og ekkert ferðaveður verði á þessum tíma. Búast má við lokunum á vegum. „Svona mikill vindur tekur í alla bíla svo stærðum skiptir ekki máli,“ segir Eiríkur Örn.

Ekki er búist við úrkomu á því svæði sem vindurinn verður mestur en éljagangi norðar. Þar er búist við skafrenningi til fjalla sem truflað geti samgöngur.

Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi til klukkan tvö á morgun. Eins og tímasetningar viðvarananna bera með sér dregur fyrst úr vindi á Austfjörðum en síðast undir Vatnajökli.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi eru íbúar hvattir til að fergja lausamuni og vera ekki á ferðinni meðan veðrið gengur yfir.

Þá hefur Landsnet sent út viðvörun vegna mögulegra rafmagnstruflana. Vegna storms er talin hætta á samslætti lína frá Lómagnúpi austru á Teigarhorn frá miðnætti til níu í fyrramálið.