Báðir Austfirðingarnir í velferðarnefnd
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 21. des 2021 09:05 • Uppfært 21. des 2021 10:16
Báðir þingmennirnir, sem eiga lögheimili á Austurlandi, hafa verið kosnir í velferðarnefnd Alþingis. Líneik Anna Sævarsdóttir er formaður nefndarinnar.
Í kosningunum í september náðu þær Líneik Anna Sævarsdóttir frá Fáskrúðsfirði og Jódís Skúladóttir úr Fellabæ kjöri á Alþingi fyrir annars vegar Framsóknarflokkinn og hins vegar Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Þær eru að auki náskyldar í gegnum Rauðholt í Hjaltastaðaþinghá.
Jódís er einnig aðalmaður í allsherjar- og menntamálanefnd en þar er Líneik Anna varamaður. Líneik Anna er annar varaforseti þingsins en Jódís sjötta í röðinni. Forsetarnir mynda forsætisnefnd. Að endingu er Líneik aðalmaður í umhverfis- og samgöngunefnd.
Jódís er varamaður í efnahagsnefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd en Líneik í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Líneik sat í kjörbréfanefndinni sem í haust hafði það vandasama verk að fara yfir talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.
Í alþjóðanefndum er Líneik formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um Norðurskaustmál og varamaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Jódís er varamaður í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES.
Við upphaf Alþingis var samkvæmt venju dregið um sætaskipan. Jódís sigur á milli tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Haraldar Benediktssonar og Hildar Sverrisdóttur. Líneik er síðan við hlið Hildar en hinu megin við hana er samflokksmaður hennar Jóhann Friðrik Friðriksson.