Skip to main content

Bæta þarf aðgengi og umgengni við Klifbrekkufossa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. maí 2023 09:38Uppfært 11. maí 2023 09:45

Þörf er á að bæta aðgengi og umgengni við náttúruperluna Klifbrekkufossa í Mjóafirði að mati Náttúrustofu Austurlands (NA.)

Þetta kemur fram í minnisblaði sem NA sendi umhverfisstjóra Fjarðabyggðar fyrir skömmu en síðasta sumar unnu starfsmenn hennar sérstaka forkönnun á svæðinu en sú könnun tengist verkefni sem snýr að vöktun verndarsvæða sem eru undir álagi ferðamanna. Með slíkri forkönnun á að fá gróft mat á ástandi svæðisins og meta þörfina á frekari vöktun.

Athugasemdir stofnunarinnar beinast bæði að aðgengi að fossaröðinni sem og umgengni við þá. Þar séu útskot fyrir bíla of lítil sem veldur því að ferðafólk leggur í vegkantinum. Aðeins tveir bílar komast fyrir í sérstöku útskoti sem gert var á sínum tíma. Þá var mikið af rusli og jafnvel klósettpappír við bílastæðið.

Þá gerir NA aðfinnslur við að fjölmargir óþarfir göngustígar hafi myndast frá veginum og að fossunum sem leiðir til óþarfa traðks sem auðveld væri að koma í veg fyrir með merkingum eða einfaldri göngubrú. Göngustígurinn sem liggur upp með fossaröðinni allri er mjög brattur og gróðurhula nánast alveg horfin. Það leiðir svo aftur til þess að jarðvegur fer fljótt af stað niður hlíðina þegar ferðafólk klöngrast stíginn og hann verður sleipur. Af þeim sökum hafa einnig þar myndast hliðarstígar þar sem fólk reynir að feta sig upp í gróðrinum.

Umhverfis- og skipulagsnefnd Fjarðabyggðar tók vel í erindi NA og verður málið unnið áfram í samstarfi við framkvæmdasvið sveitarfélagsins.

Á myndinni sem tekin var í júlí á síðasta ári má glögglega sjá hversu svæði við marga fossana hafa verið tröðkuð niður. Talið er líklegt að ferðamannafjöldi á svæðið aukist á næstu árum. Mynd NA