Skip to main content

Beiðni Alcoa Fjarðaáls um að matsmenn endurskoði matsgerð sína hafnað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. des 2021 17:22Uppfært 01. des 2021 17:24

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Austurlands um að hafna beiðni Alcoa Fjarðaáls að yfirmatsmönnum í deilu félagsins við Stracta Konstruktion um vinnubúðirnar að Haga í Reyðarfirði, verði gert að endurskoða matsgerð sína.


Dómurinn er aðeins einn áfanginn í tæplega fimm ára deilu Fjarðaáls og Stracta um vinnubúðirnar að Haga í Reyðarfirði en ferlið er rakið í dómi Héraðsdóms.

Vinnubúðir skipta um hendur

Haustið 2008 gekkst Fjarðaál inn á skilyrði sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um að fjarlægja vinnubúðirnar að Högum, sem notaðar voru við byggingu álversins. Þær voru seldar til Ástjarnar ehf. í þann 27. apríl árið 2012 fyrir um 65 milljónir króna á þáverandi gengi.

Í samningnum var kveðið á um að Ástjörn hefði fjarlægt einingarnar, 550 talsins, fyrir lok september 2013. Þá lá fyrir að Ástjörn hafði þegar selt nokkrar eignir áfram, meðal annars til Vista ehf., fyrir 107 milljónir króna. Í samningi félaganna eru ákvæði um yfirtöku á skyldum, meðal annars um frágang og að Vista eftirstöðvar kaupa Ástjarnar.

Daginn eftir að Ástjörn semur við Alcoa kaupir Ohara ehf. 17,5% hlut Vista ehf. í vinnubúðunum. Þann 1. maí kaupir Stracta loks allan hlut Vista og Ohara í vinnubúðunum, ásamt ótilgreindu lausafé fyrir 200 milljónir króna. Í þeim samningi er einnig kveðið á um skyldu um frágang á svæðinu.

Réttmætar áhyggjur af frágangi

Stracta ræðst í að fjarlægja vinnubúðirnar. Fram til vorsins 2017 sækir fyrirtækið 480 einingar og endurselur. Þá er sambandið farið að súrna. Strax árið 2015 leitar Alcoa Fjarðaál til lögmanns af ótta við að ekki verið staðið við samninga um frágang, þá hafi aðeins teknar húseiningar en ekki lagað neitt til á svæðinu.

Fram kemur að Fjarðaál hafi strax þá óttast að skyldunum um fráganginn yrði beint að Ástjörn, sem vart væri í stakk til þess búið því það væri komið í vanskil. Fyrirtækið var loks úrskurðað gjaldþrota árið 2019 en í fyrirtækjaskrá er síðasti ársreikningur þess frá 2011.

Þarna var komið töluvert fram yfir þann frest sem upphaflega var gefinn til að fjarlægja vinnubúðirnar. Bar Stracta við sölutregðu, meðal annars vegna athafna starfsmanna Fjarðabyggðar og hafði Alcoa sýnt biðlund.

Svo fór þó að lokum um miðjan maí 2017 að Alcoa Fjarðaál rifti samningnum við Stracta vegna vanefnda. Þá liggi engar raunhæfar áætlanir fyrir um frágang. Fjarðaál álíti sig frá þeim degi eiganda húsanna þannig að hvorki Ástjörn né samningsaðilar þess lengur rétt til að fara inn á svæðið. Fjarðaál lýsir sig þó tilbúið til að skoða afhendingu húseigna sem seldar hafa verið, að frádregnu tjóni og útlögðum kostnaði sem það hafi orðið fyrir, meðal annars lóðaleigu. Stóðu þá eftir 163 húseiningar auk vélaskemmu og BBQ-glerhúss. Samkvæmt áætlun sem unnin var fyrir Fjarðaál var talið kosta 320 milljónir, með virðisaukaskatti, að ganga frá svæðinu.

Vilja bætur fyrir húsin

Þessum gjörningi andmælir Stracta strax og fer þá af stað mál sem rekið hefur verið fyrir dómstólum. Snýst það meðal annars að ástandi og verðmæti búðanna vorið 2017, en Stracta hélt því fram að þær hefðu skemmst verulega veturinn 2016-17.

Stracta krefst þess að Alcoa greiði 283 þúsund krónur með vöxtum frá maí 2017, en varakrafa þess er upp á tæpar 229 milljónir með vöxtum frá sama degi fyrir tálmun eða ólögmætrar tileinkunar á eignum.

Báðir deiluaðilar öfluðu mats á verðmæti húseininganna sem eftir standa, flutningi og förgun. Þær greinargerðir lágu fyrir í mars. Strax í kjölfarið óskaði Stracta eftir yfirmati. Úrskurðurinn sem nú liggur fyrir varðar deilur um störf þeirra. Alcoa gerði athugasemdir við að yfirmatsmenn hefðu notast við vitnisburði aðila sem komu að flutningi búðanna en rétt hefði verið að kveða þá fyrir dóm og/eða gera fyrirtækinu kleift að koma sínum sjónarmiðum við þessum skýrslum á framfæri. Fyrirtækið fór því fram að yfirmatsmönnunum yrði gert að endurskoða matsgerð sína.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var af Landsrétti, funduðu yfirmatsmennirnir með báðum deiluaðilum áður þegar þeir hófu störf og lögðu línurnar fyrir þau. Við vinnuna gafst báðum aðilum tækifæri á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og leggja fram frekari gögn.

Matsgerðin sé hins vegar enginn dómur heldur sönnunargögn sem metin verði síðar í dómsmeðferð málsins. Þar gefist báðum aðilum tækifæri á að spyrja yfirmatsmennina út í störf þeirra. Þess vegna var beiðni Alcoa Fjarðaáls því hafnað.