Beitir með stærsta loðnufarm í sögu Noregs

Beitir, eitt af loðnuskipum Síldarvinnslunnar, landaði 3.000 tonnum af loðnu hjá Tripleni í Vedde við Álasund um síðustu helgi. Um er að ræða stærsta einstaka loðnufarm sögunnar í Noregi.


Fjallað er um málið á vefsíðunni sildelaget.no. þar sem fjallað er um góðan gang í loðnuveiðunum við Ísland. Hér má nefna að Börkur kom nýlega til hafnar á Seyðisfirði með stærsta loðnufarm sögunnar hérlendis eða rúm 3.200 tonn.

Á vefsíðu Síldarvinnslunnar er haft eftir Herbert Jónssyni stýrimanni Beitis að vel gekk að landa úr skipinu. Lagði Beitir síðan af stað á miðin á ný klukkan fimm í gærmorgun. Getur Beitir væntanlega hafið veiðar í fyrramálið.

Norsk skip eru með 145.000 tonn af loðnuheimildum við Ísland. Eru þau þegar farin að sigla á Íslandsmiðin til veiða. Á vefsíðunni sildelaget.no er meðal annars sagt frá því að loðnuskipið Andrea L hafi siglt til Íslands fyrir síðustu helgi.

Fram kemur að alls hafi átta norsk loðnuskip haldið til veiða við Ísland í lok síðustu viku og að von sé á fleiri skipum í þessari viku.

Þá segir að bræla hafi hamlað bæði siglingum til Íslands og veiðum um helgina. Með batnandi veðri muni fjölga í norska loðnuflotanum á Íslandsmiðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.