Bjartsýnn fyrir veiðisumarið þótt sala leyfa sé hægari en oft áður

Framkvæmdastjóri Six Rivers Iceland sem heldur utan um sex laxveiðiár á Norðausturlandi, segir sölu veiðileyfa hafa gengið hægar í ár en oft áður. Mikið vatn hefur verið í ánum að undanförnu en veiðar hefjast eftir sem áður um sumarsólstöður.

„Það er meiri snjór nú en verið hefur undanfarin ár. Hann féll meira og minna um páskana sem þýðir að það verður mikið vatn trúlega fram í júlí. Sunnudaginn fyrir viku var rennslið Selá 200 rúmmetrar á sekúndu, sem er óvenju mikið.

Ég vil ekki spá um opnanir en við reiknum með að opna hér í kringum 20. júní, eins og vanalega,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Six Rivers.

Varnarbarátta um tilvist villta laxins


Six Rivers hélt fyrir viku árlega ráðstefnu sína um stöðu villta Atlantshafslaxins. „Mér fannst mjög vel mætt og margt áhugavert sem var sagt hér. Við höfum áhyggjur af laxeldinu hér og því stjórnleysi sem ríkir þar. Á móti erum við ánægð með skógræktarverkefnið sem unnið er á okkar vegum. Það er metnaðarfullt og okkar fólk hefur undirbúið það mjög vel.“

Þar kom fram að villti stofninn er um þriðjungur þess sem hann var á níunda áratugnum. Six Rivers stendur fyrir rannsóknum og aðgerðum til að búa laxinum betri lífsskilyrði. Að því var spurt undir lok hennar hvort baráttan snérist um að halda ástandinu í horfinu hvort einhver von væri um bata. „Ég held að við getum unnið varnarsigur en ég er ekki bjartsýnn á að við náum aftur fyrri styrk þótt það sé markmiðið. Ég er samt orðinn svartsýnn þegar maður horfir á þróunina annars staðar.“

Ráðstefnan var sú fjórða í röðinni en þetta er í fyrsta sinn sem hún er haldin á Vopnafirði. Gísli segir það hafa skipt Six Rivers máli að hafa hana á Vopnafirði til að geta sýnt hvað sé að gerast á vegum félagsins. Ómögulegt sé þó að lofa því að hún verði þar árlega. Fleiri staðir á svæðinu komi til greina enda sé félagið þar með starfsemi auk þess sem ekki liggi alltaf fyrir nóg af nýjum rannsóknum til að halda uppi heilli ráðstefnu. „Okkur langar samt að ná saman hagsmunaaðilum í þessum heimi til að stilla saman strengi og hver læri af öðrum.“

Nýtt veiðihús við Miðfjarðará tilbúið fyrir veiðitímabilið 2024


Six Rivers stendur í töluverðum framkvæmdum á svæðinu. Verið er að ljúka við byggingu veiðihúss við Miðfjarðará í Bakkafirði og fleiri eru á teikniborðinu. Þá eru framkvæmdir við setur Jim Ratcliffe, eiganda Six Rivers, við Ytri-Hlíð langt komnar.

„Það eru heimamenn í Mælifelli sem byggja húsið við Miðfjarðará og það hefur gengið mjög vel. Það verður tilbúið um miðjan júní, fyrir veiðitímann. Næstu verkefni eru veiðihús við Hafralónsá og Hofsá. Við vonumst eftir að geta opnað þau 2026.

Hugmyndin hefur verið að byggja þau samtímis. Hvort það gangi eftir kemur í ljós þegar búið er að ganga frá allri hönnun og teikningum. Lóðamál eru frágengið og skipulagsmálin eru í ferli en þau eru búin að fara í gegnum sveitarfélögin. Ég held því að það verði hægt að byrja á þeim í haust. Hús Jim er ekki á vegum Six Rivers en þar er fyrirhugað að taka í notkun eftir sumarið. Það átti að vera búið.“

Vilja nýta veiðihúsin allt árið


Viðskiptahugmyndin að baki Six Rivers er að selja veiðileyfi til að fjármagna rannsóknir og verndaraðgerðir til framtíðar. Hluti af því er að tryggja notkun veiðihúsanna yfir lengri tíma en þá tæplega þrjá mánuði sem laxveiðitímabilið varir.

„Hvernig við gerum það er smám saman að skýrast hjá okkur. Við tökum skref fram á við þótt þau séu ekki stór. Það er ekki auðvelt að sækja viðskiptavini í þau, sérstaklega ekki dimmustu mánuðina. Við finnum þó aukna eftirspurn á vorin og haustin.

Við erum að byrja að vera með húsin fullmönnuð þannig þau séu tilbúin að taka á móti fólki. Við höfum síðan verið að skoða möguleikana hér á afþreyingu: kajakferðum, skíðaferðum, fjallahjólaferðum, hvalaskoðun, jeppaferðum inn í Öskju eða slíku. Við erum í samstarfi við Möðrudal sem hefur náð góðum árangri. Okkur vantar vissulega framboð á afþreyingu en það er ekki spurning að hér er til staðar þekking sem hægt er að nýta, á landslagi og dýralífi, sem við getum nýtt okkur.“

Veiðin ræður eftirspurninni


Gísli útskýrir að Six Rivers sé í grunninn ferðaþjónustufyrirtæki, sem selji gistingu, mat, leiðsögn og leyfi á veiðislóðirnar. Hann segir útlitið fyrir sumarið ágætt þótt salan hafi fengið hægar en oft áður.

„Veiðin hefur verið erfið á undanförnum árum sem leiðir til minni eftirspurnar. Við erum með lúxusvöru sem er það fyrsta sem fólk minnkar við sig þegar herðir að. Það er smá kreppa í Bretlandi, að einhverju leyti í Evrópu og samdráttur hér innanlands. Í Úkraínu er stríð og Bandaríkjamennirnir eru hálfhræddir við eldgosið.

Við getum ekki kvartað því okkur hefur gengið vel en við heyrum að það gengur hægar hjá veiðileyfasölum. Við verðum að sjá hvernig veiðin gengur í sumar það er fylgni milli hennar og sölunnar á næsta ári.“

Kaupin á Manchester United ættu frekar að hjálpa Six Rivers


Peter Williams, ráðstefnustjóri og stjórnandi hjá Ineos, félagi Ratcliffe, sagði hann hafa tekist á hendur annað endurreisnarverkefni í vetur. Peter vísaði þar til þess að Ratcliffe keypti um jólin enska knattspyrnufélagið Manchester United. Gísli segir það verkefni ekki eiga að hafa áhrif á vinnu Six Rivers.

„Hann er mjög áhugasamur um félagið. Ég held það standi honum nærri því hann er frá Manchester. Samtöl okkar enda gjarnan í fótbolta en ég held að ef eitthvað er þá muni þessi kaup frekar styrkja okkur. Kannski fáum við fótboltamenn til okkar í veiði í framtíðinni. Það væri spennandi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.