Bragginn yngri en haldið hefur verið fram
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. des 2023 08:38 • Uppfært 25. des 2023 10:57
Bragginn, sem stendur við Sláturhúsið á Egilsstöðum, er samkvæmt upplýsingum Austurfréttar mun yngri en haldið hefur verið fram. Byggðaráð Múlaþing áformar að kanna nánar fýsileika þess að endurbyggja hann í ljósi meints menningarverðmætis hans.
Eins og Austurfrétt greindi frá í síðustu viku samþykkti byggðaráð, að fengnum tillögum starfshóps, að kanna verðmæti þess að endurbyggja braggann. Er það talið kosta 16-27 milljónir króna, eftir hvort nýtt járn verður sett á hann eða ekki.
Er það meðal annars gert með vísan til menningarsögulegs gildi braggans, að Kaupfélags Héraðsbúa hafi keypt hann af hernum á Reyðarfirði, að hann sé meðal elstu bygginganna á Egilsstöðum og hann hafi meðal annars verið samkomusalur. Þær upplýsingar koma fram í húsakönnun sem verkfræðistofan Efla vann í tengslum við gerð nýs miðbæjarskipulags í byrjun árs 2021.
Eftir að Austurfrétt birti frétt um málið bárust ábendingar frá bæði gömlum Egilsstaðabúum og starfsfólki KHB auk gamalla mynda af svæðinu. Út frá þeim upplýsingum má ráða að þarna virðist vera ruglað saman ólíkum bröggum.
Fluttur inn nýr í byrjun sjöunda áratugarins
Rétt er að KHB keypti bragga af herliðinu en það er ekki sá sem um ræðir og hefur lengst af verið kallaður kornskálinn. Í mynd úr sögu KHB, sem tekin er árið 1954, má sjá greinilega fimm bragga á athafnasvæði Kaupfélagsins. Um það bil þar sem verslun Nettó er í dag eru þrír braggar. Einn hýsti trésmíðaverkstæði KHB sem síðar brann. Annar var mötuneyti fyrir sláturhúsið Sá þriðji var samkomuhús og bíó.
Við Sláturhúsið voru tveir braggar. Við það eru tveir braggar. Annar geymslubraggi en hinn stendur fyrir ofan það og gegndi hlutverki fjárréttar. Þessar byggingar eru einnig sjáanlegar á loftmynd frá 1958, þó aðeins grunnur trésmíðaverkstæðisins því það var þá brunnið.
Á myndum frá 1966 sjást miklar breytingar á svæðinu. Trésmíðaverkstæðið er farið en samkomusalurinn stendur. Ofan við Sláturhúsið er kominn lítill braggi við hlið fjárréttarinnar og annar töluvert lengri, innan við húsið og réttina, sá braggi sem nú er til umræðu.
Þessi gögn eru enn fremur studd skráningu í fasteignaskrá. Bragginn stendur að Miðvangi 11. Þar er skráð 384 fermetra vörugeymsla byggð í tveimur áföngum árin 1961 og 62. Það kemur heim og saman við frásagnir um að hann hafi verið fluttur inn nýr og reistur í tvennu lagi. Fyrri hlutinn til að vinna korn í tilraunaverkefni bænda á Fljótsdalshéraði, sá seinni til að geyma það. Þaðan dregur hann nafn sitt: Kornskálinn.