Brýnt að skoða skipulag hafnarsvæðanna á Djúpavogi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. des 2021 11:13 • Uppfært 08. des 2021 11:17
Endurskoðun skipulags hafnarsvæða á Djúpavogi verður næsta verk sveitarstjórnar Múlaþings eftir að hún hefur lokið afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs. Stóraukin umsvif laxaslátrunar hjá Búlandstindi kalla upp á endurskoðun í bæði Innri-Gleðivík og núverandi höfn í Djúpavogi.
Í bókun frá síðasta fundi sveitarstjórnar kemur fram að mikilvægt sé að hefja endurskoðun á skipulagi hafnarsvæðanna sem fyrst vegna framtíðarþarfa þjónustu við fraktskip, fiskveiðar og skemmtiferðaskip.
Sveitarstjórnin var að bregðast við erindi frá Búlandstindi, en formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs auk tveimur starfsmönnum á sviðinu hafa fundað með fyrirtækinu.
Áforma nýtt sláturhús
Í erindi Búlandstinds er gerð grein fyrir stórauknum umsvifum fyrirtækisins á næstu árum í takt við áform um aukið fiskeldi á næstu árum. Þar kemur fram að um 19 þúsund tonnum sé slátrað á ári hjá fyrirtækinu í dag en gangi áform um eldi í Stöðvarfirði, Seyðisfirði og Mjóafirði eftir verður sláturmagnið 45 þúsund tonn árið 2026.
Þetta er meira en núverandi sláturhús Búlandstinds getur annað. Ekki er talið unnt að stækka það á núverandi stað en þess í stað horfir fyrirtækið til Innri-Gleðivíkur. Þar er áformað að byggja nýtt 10 þúsund fermetra sláturhús sem tilbúið verði árið 2026.
„Það hljómar kannski undarlega að segja að þetta megi ekki seinna vera, en skipulagsmál taka tíma og ef þetta á að ganga upp þarf að huga strax að skipulagsmálunum,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs á fundi sveitarstjórnar.
Stefán Bogi, sem aðrir fulltrúar sem tóku til máls, lýstu ánægju með frumkvæði Búlandstinds, áform þess um atvinnuuppbyggingu og ítrekuðu að ekki mætti stranda á skipulagsmálum í ferlinu. Í erindi Búlandstinds segir að tafir á uppbyggingu geti leitt til þess að hluti eða allur sá fiskur sem alinn er á Austfjörðum verði sendur annað til vinnslu. Ekkert bendi til þess að aðstæður henti áfram vel til vinnslu á Djúpavogi en samkeppni sé frá bæði öðrum vinnslum og höfnum, hérlendis sem erlendis og því skipti máli að halda vel á spilunum.
Gangandi og ökutæki þvælast hvert fyrir öðru
Búlandstindur er reyndar þegar kominn með hluta starfsemi sinnar til Innri-Gleðivíkur. Þar er verið að byggja upp frauðkassaverksmiðju, 2800 fermetra að stærð, sem kostar 1,5 milljarða og áætlað er að gangsetja í mars/apríl. Þá hefur Búlandstindur tekið yfir gömlu bræðsluna og er þar að byggja upp verksmiðju sem vinnur mjöl í dýrafóður úr slógi.
Þessar framkvæmdir hafa þegar aukið mjög umferð á svæðinu. Í erindi frá Búlandstindi er bent á að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða bæði í Innri-Gleðivík og núverandi hafnarsvæði á Djúpavogi til að tryggja nægt rými fyrir atvinnustarfsemi og öryggi gangandi vegfarenda.
Á hafnarsvæðinu hefur löndun fiskbáta frá Djúpavogi og umferð aðkomubáta aukist verulega. Þar er einnig miðstöð ferðamennsku þar sem almenningssalerni eru í Faktorshúsi en jafnframt keyra þar um nokkrir stórir vörubílar á dag með laxakassa þegar mest lætur.