„Búið að eyðileggja fyrir okkur jólin“

„Við erum bæði sorgmædd og reið og þetta eiginlega búið að eyðileggja jólin fyrir fjölskyldunni,“ segir Rósa Elísabet Erlendsdóttir, sem er afar ósátt við hvernig staðið var að snyrtingu á leiðum ættingja í kirkjugarði Heydalakirkju í Breiðdal.

Fjöldi fólks hefur tekið undir gagnrýnina á samfélagsmiðlum en hún snýr að því hversu illa var staðið að snyrtingu kirkjugarðsins af hálfu sóknarnefndar seint í sumar. Þökulagt yfir stór svæði, tré og hríslur skornar eða fjarlægðar og í garðinum sást líka brotinn kross. Rósa gengur svo langt að tala um skemmdarverk á leiðum fólks.

„Við fjölskyldan höfum fyrir venju að heimsækja tvisvar á ári, votta virðingu okkar, snyrta og slíkt. Nú komum við að og það búið að saga niður tré sem pabbi setti niður hjá leiði bróður síns og móður. Það var búið að þökuleggja yfir blóm á öðrum leiðum í garðinum og allt án þess að hafa neitt samband við ættingja. Þetta eru alveg hræðilegar meðfarir.“

Svör sóknarnefndar kirkjunnar eru að hirðing garðsins hafi verið unnin í sjálfboðavinnu seint í sumar og þörf hafi verið á. Óskað hafi verið eftir aðstoð áhugasamra til verksins en fáir sýnt því áhuga. Ekki hafi verið ætlun að eyðileggja neitt en samkomulag orðið um að taka niður illa farin tré og halda í þær fjölæru plöntur sem gróðursettar hafi verið. Þá hafi verið ómögulegt að hafa samband við alla ættingja hinna látnu því þeir skipti tugum ef ekki hundruða. Nefndin biðst velvirðingar og lofar betrun.

Rósa tekur afsökunarbeiðni nefndarinnar ekki góða og gilda.

„Heldur þetta fólk virkilega að þessi hálfsöguðu tré muni ná sér að nýju eða að blóm sem lifað hafa lengi á leiðum rífi sig gegnum þökur? Það er varla að fara að gerast og mér er ekki runnin reiðin yfir að ekki skyldi vera haft beint samband við aðstandendur áður en farið var í svona lagað.“

Mynd úr kirkjugarðinum í desember. Búið er að saga niður allnokkur tré sem gróðursett voru af ættingjum og vinum. Mynd Rósa Erlendsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.