Búið að hreinsa sígaretturnar úr fjörunni á Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2023 17:17 • Uppfært 16. ágú 2023 17:18
Búið er að hreinsa upp fjölda sígarettustubba sem fundust í fjöru utan við þéttbýlið á Eskifirði í gær. Enn er ekkert vitað um hvaðan þeir kunna að hafa borist.
„Þetta var drjúg rönd á 15-20 metra kafla í vík fyrir neðan Högnastaði,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Fólk á ferli sá sígaretturnar þar seinni partinn í gær og gerði sveitarfélaginu viðvart. Starfsmaður skoðaði aðstæður í kjölfarið til að meta hvernig best væri að hreinsa fjöruna. Í verkið var fenginn ryksugubíll og var hann búinn um klukkan fjögur í dag.
Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hvaðan sígarettustubbarnir komu og hæpið að það verði nokkurn tíma ljóst. „Þetta hefur verið í einhvers konar íláti en stóra spurningin er hvernig það endaði í hafinu. Það hefur verið alls konar hugarflug í dag, hvort einhvers staðar hafi fokið úrgangspoki eða þetta vísvitandi sett í sjóinn. Ég trúi að fólk sé hætt þeim sóðaskap. Straumar á svæðinu eru þannig að ekki er hægt að segja hvort þetta hafi komið innan úr firði eða utan að,“ segir Jóna Árný.
Það eina sem liggi fyrir er að magnið hafi verið töluvert magn og um hafi verið að ræða sígarettur frá Camel og Marlboro sem búið var að reykja.
Ekki liggur fyrir hvort frekari vinna sé framundan, til dæmis formlegar tilkynningar til annarra stofnana sem hafa með umhverfið að gera. „Það skipti mestu máli að ná sígarettunum úr fjörunni áður en þær bærust aftur út með sjónum.“
Fólk á ferli í fjörunni eftir að hreinsun lauk á fimmta tímanum í dag. Mynd: Fjarðabyggð