Búið að slátra öllu úr sýktu kvínni

Búið er að slátra tæplega sjötíu þúsund fiskum úr eldiskví í Reyðarfirði þar sem blóðþorri greindist í síðustu viku. Beðið er niðurstaðna sýnatöku úr öðrum kvíum á eldissvæðinu.

Þetta er í fyrsta sinn sem blóðþorri, sem kemur frá stökkbreyttri ISA veiru, greinist hérlendis. Strax var brugðist við með að setja eldisstöð Laxa fiskeldis að Gripalda í Reyðarfirði í bæði sóttkví og dreifingarbann.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa, sagði í samtali við Austurfrétt í morgun að búið að slátra öllum fisk í kvínni þar sem sýkingin fannst, 68.000 talsins, og vinna þá í moltu. Nótinni úr kvínni var fargað.

Þá er búið að taka tugi sýna úr öðrum kvíum að Gripalda. Vonast er eftir fyrstu niðurstöðum úr þeim í byrjun næstu viku. Dýralæknar hjá Löxum hafa unnið að verkinu ásamt starfsmönnum Matvælastofnunar.

Telur hratt og vel hafa verið brugðist við

Veiran uppgötvaðist eftir að sýni voru tekin úr fiskum eftir að vart varð við óeðlileg afföll þar. Óeðlilegra affalla hefur ekki orðið vart í öðrum kvíum. „Við fórum að sjá mjög aukin afföll dag frá degi. Við kölluðum strax í dýralækna sem tóku sýni sem voru skimuð mjög vandlega. Þá kom veiran í ljós. Brugðist var við um leið og rökstuddur grunur lá fyrir um hana. Ég held að við höfum gert það eins hratt og vel og hægt var,“ segir Jens Garðar.

Fiskurinn í sýktu kvínni var að meðaltali um 1,9 kg en sláturfiskur er um 5,5 kg. Áætlað var að slátra fiski úr stöðinni að Gripalda næsta sumar eða haust. Jens Garðar segir að slátrað verði úr stöðinni eins fljótt og hægt er og hvíla svo svæðið. Aðspurður svarar hann að fjárhagslegt tjón Laxa sé umtalsvert en engin tilraun hafi verið gerð til að meta það enn, vinnan síðustu daga hafi miðað að því að bregðast við veirunni.

Lært af eldri tilfellum

Ef veiran finnst ekki í öðrum kvíum af stöðinni ætti að vera hægt að nota fisk þaðan til manneldis. Fordæmi eru fyrir slíku annars staðar þar sem hún hefur komið upp. „Það er allur gangur á þessu. Síðast þegar veiran kom upp í Færeyjum var hún bundin við tvær kvíar, ISA-veiran er ekki bráðsmitandi.“

Lærdómur þaðan nýtist nú. „Þegar veiran kom fyrst upp í Færeyjum 2004/5 voru þar tugir eldisbænda, hver ofan í öðrum og lítið hugað að sóttvörnum milli stöðva. Áhrifin á færeyska fiskeldið urðu þá mikil. Eftir það tóku Færeyingar upp nýtt kerfi og okkar kerfi er sambærilegt. Hér eru fjórir kílómetrar í næstu stöð og 12 í þar næstu auk þess sem gætt er að smit- og sóttvörnum. Þessi veira getur alltaf komið upp en það er hægt að lágmarka hana með góðum smitvörnum.“

Stöðin að Gripalda er einangruð þannig að bátar sem þjónusta hana, starfsmenn og öll tæki eru gerð út frá Reyðarfirði meðan starfsfólk og tæki annarra stöðva Laxa eru áfram á Eskifirði. Með þessi er hindraður allur samgangur milli gripalda og annarra eldissvæða. „Við erum vel búin og höfum ekki þurft að bæta við okkur tækjum eða fólki vegna þessa,“ segir Jens Garðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.