Skip to main content

Byggðastofnun eignast gamla kaupfélagshúsið á Stöðvarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. júl 2025 12:24Uppfært 07. júl 2025 09:59

Byggðastofnun er orðin eigandi gamla kaupfélagshússins, sem síðast hýsti Café Söxu, á Stöðvarfirði. Stefnt er á að koma rekstri sem fyrst af stað aftur í húsinu en fyrst þarf að laga skemmdir sem urðu á því í vetur.


Byggðastofnun bauð hæst þegar húsið var boðið upp á nauðungaruppboði þann 10. júní. Boðið var síðan staðfest af sýslumanni og von er á afsali fyrir húsið fljótlega. Þá tekur Byggðastofnun formlega við húsinu og getur farið í aðgerðir.

Verslun hófst í húsinu 4. júlí 1982


Húsið er einn af hornsteinum Stöðvarfjarðar. Það stendur í miðju þorpsins á Stöðvarfirði og er áberandi þar sem það er málað gult að utan en líka því það er rúmir 600 fermetrar að stærð. Það var byggt fyrir Kaupfélag Stöðfirðinga og skráð byggingarár þess er 1980.

Hins vegar mun það formlega hafa verið tekið í notkun árið 1982. Lagerhlutinn komst í gagnið um veturinn en fyrsti hluti verslunarinnar var opnaður fyrir sléttum 43 árum, þann 4. júlí, samkvæmt grein í Tímanum.

Kaupfélagið varð gjaldþrota árið 2001 en Stöðfirzka verslunarfélagið tók við verslun í húsinu af þrotabúinu. Húsinu var síðan breytt í gistiheimili og kaffihús, fyrst undir merkjum Kaffi Steins, síðan sem Café Saxa. Reksturinn hefur verið stopull síðustu ár eftir eigendaskipti og breytingarnar.

Skemmt eftir óveðrið í vetur


Að sögn Hjalta Árnasonar, forstöðumanns lögfræðisviðs Byggðastofnunar, er aðstaða í húsinu ágæt, vel búið eldhús og 14 herbergi með baði auk stórs salar þannig að möguleikarnir eru ýmsir. Hins vegar þarf að gera við húsið og það er forgangsverkefni stofnunarinnar.

„Það skemmdist í óveðrinu í vetur. Það þarf að byrja á ytra byrðinu, gera það vatns- og vindhelt. Eins sprakk rör innandyra í vetur þannig hluti gistihússins varð fyrir vatnsskemmdum. Það er búið að stöðva þann leka og þurrka upp að mestu en það þarf að klára viðgerðina.“

Reynt að koma rekstri af stað sem fyrst


Samkvæmt reglum ber Byggðastofnun að auglýsa eignir sem hún á eins fljótt og hægt er. Að leigja það út er næsti kostur. „Við reynum að koma húsinu í rekstur sem allra fyrst þannig það nýtist staðnum. Við höfum verið í sambandi við heimafólk og Austurbrú,“ segir hann.

Ljóst er að afar hratt þyrfti að vinna til að geta komið af stað starfsemi í sumar en Hjalti segir það ekkert útilokað. „Við myndum skoða það. Við höfum þegar heyrt frá fólki sem er áhugasamt um rekstur í húsinu þótt það sé ekki endilega í sumar,“ segir Hjalti.

Stöðvarfjörður er meðal þeirra staða sem eru í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir, þar sem sérstakur stuðningur er veittur við ákveðna staði í takmarkaðan tíma. Verkefnið Sterkur Stöðvarfjörður hófst árið 2022 og átti að ljúka í ár en það hefur verið framlengt út næsta ár. „Verkefnisstjórnin mun eflaust koma að nýtingu hússins sem og okkar starfsmenn í verkefninu.“