Skip to main content

Byggjum saman draga saman á Reyðarfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2021 11:49Uppfært 30. des 2021 11:51

„Þetta er ekki skemmtileg ákvörðun að neinu leyti enda fyrirtækið reyðfirskt að uppruna en við sjáum ekki rekstrargrundvöll hér fyrir þessu lengur,“ segir Árni Már Valmundarson, eigandi og framkvæmdastjóri Byggjum saman.

Ákveðið hefur verið að loka vöruhúsi fyrirtækisins á Reyðarfirði frá áramótum en stærsti hluti viðskipta fyrirtækisins á sér nú stað sunnanlands meðan dregið hefur töluvert úr hér austanlands. Áfram verður þó starfsstöð og sölumaður til staðar sem sinna mun Austurlandi og fyrirtækið mun áfram senda vörugáma hingað austur.

Mikill vöxtur á skömmum tíma

Fyrirtækið sem stofnað var fyrir aðeins þremur árum á Reyðarfirði til að bjóða upp á ódýrari bygginga- og heimilisvörur með beinum innflutningi hefur mjög vaxið fiskur um hrygg á skömmum tíma og náð góðri fótfestu þó samkeppnin á þeim markaði sé mikil. Árni segir að sá sparnaður sem fyrirtækið nái með lokum vöruhússins á Reyðarfirði skili sér til neytenda alls staðar með góðum samningum við flutningsaðila.

„Samningar okkar við flutningsaðila hafa gengið mjög vel. Við viljum fremur gera þetta svona, spara mikinn kostnað við lítt nýtta starfsstöð hér á Reyðarfirði og nýta þá fjármuni í að lækka enn frekar flutningskostnað á landsvísu.“

Nýjungar framundan

Aðspurður segir Árni að fjölmargt sé í farvatninu hjá fyrirtækinu á næstunni. Búið sé að stórauka allt vöruúrval í kjölfar þess að fyrirtækið hafi opnað 300 fermetra sýningarsal og verslun í Kópavogi. Þá sé búið að efla pantanakerfi fyrirtækisins og nú geta kaupendur fylgst með vörupöntunum sínum alla leið að dyrum. Þá ætlar fyrirtækið að bjóða upp á nýjung á vordögum sem felst í því að viðskiptavinir sem fara sjálfir til Póllands geta notið sérstakrar kaupaðstoðar fyrirtækisins þar. Það felur í sér að fólk getur keypt stærri hluti í ferðinni og notið þjónustu Byggjum saman við að koma þeim heim til Íslands.

Mynd úr vöruskemmu Byggjum saman á Reyðarfirði. Ein söluhæsta vara fyrirtækisins síðastliðin ár hafa verið snjóruðningstæki á borð við þessi. Selst hafa yfir 700 slík til einstaklinga.