Skip to main content

Dæmdur fyrir að hóta líkamsmeiðingum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. des 2021 13:33Uppfært 13. des 2021 15:15

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa hótað að berja framtennurnar úr öðrum. Mennirnir deildu um yfirráð yfir álkassa.


Sá ákærði kom að kvöldi til í júní í fyrra að heimili hins, ásamt öðrum manni. Þar var honum gefið að sök að hafa hótað barsmíðum og að brjóta úr honum framtennurnar á tröppunum, ásamt fleiri hótunum og ógnunum.

Uppspretta deilna mannanna virðist hafa verið álkassi, sem sá fyrir árásinni, smíðaði. Mun kassinn hafa verið geymdur hjá félaga mannsins, þar til hann hvarf árið 2017. Sakborningurinn kvaðst hafa fundið kassann í brotajárnshaug og hirt hann.

Smiðurinn sá hins vegar kassann á yfirráðasvæði mannsins. Hann hringdi og bauð manninum að borga fyrir kassann, en fór og sótti hann þegar þeirri ósk var hafnað. Þegar ákærði kom á vettvang tók hann eftir að fleira vantaði en álkassann og lét hann því vin sinn keyra sig að heimili smiðsins.

Maðurinn viðurkenndi að hafa verið reiður og hávær þegar hann kom að húsinu og slegið á það flötum lófa til að leggja áherslu á orð sín. Fyrir honum hefði aldrei vakað að berja manninn, hann hefði hvorki ögrað honum né hótað, aðeins hefði verið um að ræða rifrildi tveggja manna. Loks var það vinur hans sem dró hann í burtu. Allt var því yfirstaðið þegar lögregla kom á vettvang.

Vitni, meðal annars bæði vinurinn og aðrir sjónarvottar, studdu illa þessa frásögn, jafnvel þótt vinurinn hafi skýrt frá því að hann hafi fengið símtöl frá óþekktum aðilum um að draga framburð sinn til baka.

Vitnin sögðu manninn hafa verið sýnilega ölvaðan og brjálaðan. Hann hefði haft uppi nóg af hótunum, þar með talið um framtennurnar. Þau sögðu húsráðanda ekki hafa ögrað gestkomanda, hafa verið ákveðinn í svörun en haldið ró sinni.

Dómurinn taldi framburð vitnanna trúverðugan og með þeim sannað að maðurinn hefði viðhaft gróf hótunarorð sem hefðu verið til þess fallin hjá hinum ótta um líf sitt og heilbrigði. Hann var því dæmdur í 30 daga fangelsi til tveggja ára, auk þess að greiða helming málskostnaðar, um 180 þúsund krónur.