Dauði skógar ekki endalok kolefnisbindingarinnar

Rotnandi eða dauður trjágróður virðist mikilvægari en áður var talið fyrir kolefnisbindingu í skógum. Sífellt meiri vitneskja fæst um kolefni í jarðvegi en langan tíma tekur að afla hennar.

Þetta var meðal þess sem fram kom á ráðstefnu sem haldin var á Hallormsstað nýverið. Með henni lauk fimm ára skógarverkefni Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Sænski skógarfræðingurinn Lars Högbom fjallaði um hvernig dauði trjáa táknaði engin endalok heldur nýtt upphaf. Viðurinn rotnar og skilar næringarefnum út í jarðveginn.

Högbom benti á að engin lífvera jarðarinnar treysti jafn mikið á kolefni og tré. Þau nærist á því og noti það til að byggja sig upp. Trén safna í sig kolefni svo lengi sem þau lifa og senda það einnig niður í jarðveginn. Kolefni losnar hins vegar tréð rotnar.

En trén skipta ekki bara máli vegna þess kolefnis sem í þeim er bundið, heldur mikilvægi þess fyrir lífríkið í kring. Þau auðga allt lífríkið í kringum sig, stuðla meðal annars að auknum sveppavexti en sveppirnir virðast skipta lykilmáli við myndum jarðvegs.

Erfiðra með að skilja það sem við sjáum ekki

Á ráðstefnunni var mikið talað um mikilvægi kolefnisbindingar í jarðvegi, en nýjar rannsóknir leiða stöðugt í ljós hve mikið kolefni er bundið í moldinni. Lars orðaði það þannig að tré væru falleg í landslaginu en meiri skilningur yrði að fást á hvað gerist annars staðar í kerfinu. Annar fyrirlesari sagði að við ættum auðvelt með að hugsa um það sem við sæjum berum augum en torveldara með það sem væri í gangi undir fótum okkar.

Út frá erindi Lars sköpuðust meðal annars umræður um grisjun skóga, til dæmis að hve miklu leyti ætti að skilja grisjunarvið eftir í skóginum. Jürgen Aosaar frá eistneska líffræðiháskólanum kynnti tilraun á áhrifum mismunandi grisjunaraðferða í birkiskógum og áhrif þeirra á kolefnisbindingu. Niðurstöður hennar væri að fyrst eftir grisjun minnkaði bindingin en ykist á ný þegar þau tré sem eftir stæðu styrktust. Jurgen minnti á að ekki mætti bara horfa á kolefnisbindingu, samfélagið þyrfti líka sterk tré sem skiluðu góðu timbri.

Skógurinn mikilvægur með endurheimt votlendis

Á ráðstefnunni var einnig talað um samspil endurheimtar votlendis og skógræktar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Meðal annars voru kynntar niðurstöður íslenskrar rannsóknar sem sýndu að asparrækt í framræstu landi skilaði meiri kolefnisbindingu heldur en að bleyta það upp á nýtt.

Lettar hafa haft mikinn áhuga á þessu samspili og á ráðstefnunni var farið yfir tvær rannsóknir lettnesku skógræktarrannsóknarstofnunarinnar á efninu. Endurheimt votlendis stöðvar jarðvegseyðingu og þar með losun kolefnis en hún skilar ekki aukinni bindingu. Þá er óljóst með áhrif á losun annarra gróðurhúsalofttegunda.

Lettnesku rannsóknirnar sýndu takmarkaðan árangur af endurheimt votlendis, nema skógrækt fylgdi með því. Jafnvel geti framræsing í þágu skógræktar verið af hinu góða, sé aðeins horft á losun gróðurhúsalofttegunda. Ræktun skjólbelta, til dæmis við skurði, kom mjög vel út. Bæði binda þau mikið kolefni auk þess sem þau framleiða mikinn lífmassa.

Margir fyrirlesaranna settu þann fyrirvara að rannsóknir á áhrifum skógræktar þyrftu að vera til langs tíma og hjá mörgum þeirra voru takmarkaðar niðurstöður komnar fram eða þörf á auknum rannsóknum.

Þörf á rannsóknum sem standa í tugi ára

Um þetta ræddi Leena Finér frá finnsku náttúrufræðistofnuninni. Hún benti á að áhrif grisjana koma fram á tíu árum og framræsingar á 60 árum. Finnar hafa horft á efnasamsetningu í straumvatni, í því koma áhrif loftslagsbreytinga fram á rúmum tíu árum.

Út frá þessu sé meðal annars mikilvægt að henda aldrei sýnum eða gögnum heldur eiga þau til að geta gert samanburð. Ný og betri tæki eða þekking geti einnig veitt nýjar upplýsingar úr gömlum sýnum. Þá benti Lars á að stundum mætti ekki elta vísindin of hratt, enn væri verið að greiða úr mistökum í skógrækt sem átt hefðu sér stað upp úr 1960.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.