Deilur eigenda Kaldvíkur halda áfram á meðan hlutabréfin hrynja
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. sep 2025 14:35 • Uppfært 05. sep 2025 14:38
Eigendur minnihluta í fiskeldisfélaginu Kaldvík hafa leitað til norskra dómstóla vegna þess sem þeir telja óvönduð vinnubrögð aðaleigenda. Hlutabréfaverð félagsins hefur helmingast frá því um áramót þegar deilurnar hófust. Á sama tíma eru vandræði í eldinu en þörungablómi olli skaða í sumar.
Deilur milli eigenda í Kaldvík hafa staðið frá því um áramót þegar meirihluti stjórnarinnar ákvað að kaupa aðra eigendur út úr umbúðaverksmiðjunni og laxasláturhúsinu á Djúpavogi en Måsøval-fjölskyldan, stærsti hluthafi Kaldvíkur, var meðal seljenda.
Minni hluthafar, sem samanlagt eiga innan við 10% af félaginu, töldu sig hafa verið hlunnfarna því hlutirnir hefðu verið keyptir á of háu verði. Stjórnarmaður sagði af sér í mótmælaskyni en fjölskyldan styrkti enn frekar stöðu sína þegar eftirmaður var kosinn.
Litlu hluthafarnir héldu áfram og knúðu fram aukaaðalfund um tillögu þeirra um óháða rannsókn á verðmatinu sem kaupin byggðust á. Því var hafnað en hluthafarnir höfðu næst kost á að leita til almennra dómstóla.
Það hafa þeir nú gert en í skýrslu um uppgjör Kaldvíkur fyrir annan ársfjórðung kemur fram að hluthafarnir hafi höfðað mál fyrir héraðsdómi í Noregi. Þar segir að úrskurður eigi að fást síðar í haust. Af hálfu meirihlutans hefur því ávallt verið haldið fram að verðið hafi verið sanngjarnt og viðskiptin þýði hagræði fyrir Kaldvík til framtíðar.
Þörungablómi til vandræða í sumar
Á ýmsu hefur gengið í rekstri Kaldvíkur undanfarið ár. Óvenju kaldur sjór síðasta vetur varð til þess að fyrst drápust seiði sem sett voru út í sjó og síðan fiskar í kvíum. Samkvæmt fjórðungsuppgjörinu var vandamálunum ekki lokið þar með því í sumar tók við mikill þörungablómi.
Samkvæmt frétt RÚV drapst einn af hverjum sex löxum í eldiskvíum í Berufirði. Í uppgjörinu segir að blóminn hafi hægt á vexti fiska og kallað á að þeim væri slátrað fyrr en áætlað var. Þörungarnir geta kæft fiskana með því að setjast í tálkn þeirra en þeir valda því líka að fiskurinn sér síður það æti sem er í boði. Í uppgjörinu kemur einnig fram að vetrarsár þýði að minna sé um fyrsta flokks fisk frá eldisstöðinni við Vattarnes í Reyðarfirði en ætlað var.
Lægra verð fyrir minni fisk
Í ár var áætlað að slátra um 18.000 tonnum af fiski en samkvæmt frétt Intrafish um uppgjörið verður útkoman 16% minni vegna þeirra affalla sem að framan hafa verið talin. Litlum hluta þess er slátrað á öðrum og þriðja ársfjórðungi en til stendur að nýta svigrúm til að bæta búnað í sláturhúsinu á Djúpavogi.
Á síðasta ársfjórðungi stóð til að slátra 8.100 tonnum en þá verður byrjað að slátra kynslóðum sem byrjað var að ala árið 2024 og lokið við að slátra fiskum frá 2023. Þetta þýðir viðbót upp á 1.000 tonn eða 20% milli ára.
Tap Kaldvíkur á ársfjórðungnum var tæpar 16,5 milljónir evra, samanborið við 6,4 milljónir á sama tímabili 2024 og 22,8 milljónir á fyrri helmingi ársins samanborið við 8,8. Verð á kíló fór úr 7,34 evrum í 6, aðallega vegna þess að minna var um úrvalsfisk því fiskurinn var minni.
Vonast eftir leyfi til eldis í Seyðisfirði á þessu ári
Í júní lauk félagið við 40 milljarða króna endurfjármögnun en í ágúst urðu skyndileg forstjóraskipti. Seiðaframleiðsla hefur gengið vel og sala á mörkuðum í Bandaríkjunum og Kína líka en tekið er fram að Ísland hafi forskot á Noreg vegna fríverslunarsamnings við Kína. Íslenski laxinn sleppur þar með við 8% toll sem lagður er á þann norska. Bólusetning gegn ISA-veirunni, sem olli miklum usla árið 2022, þykir gefast vel og til framtíðar er stefnt á að rækta kraftmeiri seiði.
Í uppgjörinu er nokkru púðri eytt í leyfi sem Kaldvík hefur sótt um til að ala lax í Seyðisfirði. Þar segir að útgáfu þess sé vænst í ár. Í umfjölluninni segir að leyfið auki framleiðslugetu og sveigjanleika í rekstri ásamt því að draga úr áhættu. Sótt er um að ala þar 10.000 tonn, þar af 6.500 tonn af frjóum fiski.
Hlutabréfaverð íslensku laxeldisfyrirtækjanna hríðfellur
Vandræðin hjá Kaldvík eru farin að koma fram í hlutabréfaverðinu sem er komið niður í um 12 krónur norskar á hlut. Það var um 28 krónur um áramótin, áður en deilur hluthafanna komu fram í dagsljósið. Það hefur lækkað jafnt og þétt en snörp niðursveifla var til dæmis í maí. Samkvæmt gögnum frá norsku kauphöllinni var gengið yfir 40 krónur á hlut þegar Laxar og Fiskeldi Austfjarða sameinuðust í Kaldvík um áramótin 2021/22.
Kaldvík er þó ekki eina íslenska fiskeldisfélagið sem þolað hefur slíka niðursveiflu. Hlutabréf í Arctic Fish, sem Síldarvinnslan á hlut í eru komin niður í 33 krónur norskar á hlut í norsku kauphöllinni eftir að hafa verið rúmum 70 krónum um áramót. Skást er staðan hjá Icelandic Salmon, móðurfélagi Arnarlax, þótt gengið þar sé sögulega lágt, innan við 90 krónur norskar á hlut. Það var 120 krónur um áramót.