Skip to main content

Roy-Tore hættur sem framkvæmdastjóri Kaldvíkur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. ágú 2025 10:59Uppfært 14. ágú 2025 11:00

Roy-Tore Rikardsen hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri fiskeldisfélagsins Kaldvíkur, innan við ári eftir að hann kom til starfa. Á ýmsu hefur gengið þetta ár. Vidar Aspehaug tekur við stjórninni til bráðabirgða.


Í tilkynningu Kaldvíkur til Kauphallarinnar segir að stjórn félagsins og Roy-Tore „hafi komist að samkomulagi um að hann hætti strax sem framkvæmdastjóri félagsins.“

Samkomulag er fyrir hendi um að hann verði félaginu til ráðgjafar til loka febrúar 2026 til að setja eftirmann sinn inn í stöðuna. „Það hafa verið forréttindi að vinna með frábæru fólki innan Kaldvíkur. Bæði félagið og fiskeldi eiga bjarta framtíð innan íslensks efnahagslífs,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.

Vidar Aspehaug tekur við framkvæmdastjórastöðunni á meðan leitað er að nýjum leiðtoga. Vidar kom til Kaldvíkur árið 2022 og hefur setið í framkvæmdastjórn með ábyrgð á gæðastjórn og heilbrigði fiska. Hann er með doktorsgráðu í heilbrigði fiska frá Háskólanum í Björgvin og stofnaði og leiddi PatoGen, sem lýst er sem helstu tilraunastofu Noregs í heilbrigði fiska.

Kalt og kostnaðarsamt haust


Roy-Tore kom til Kaldvíkur 1. september í fyrra eftir að Guðmundur Gíslason, sem upphaflega byrjaði fiskeldi í Berufirði undir merkjum Fiskeldis Austfjarða, óskaði eftir að láta af störfum. Hann er í dag framkvæmdastjóri sölusviðs. Kaldvík varð síðan til með samruna Fiskeldis Austfjarða og Laxa Fiskeldis, sem var með eldi í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Kaldvík er eina fyrirtækið með eldi á Austfjörðum í dag en það hefur að auki leyfi í Stöðvarfirði og hefur sótt um leyfi fyrir Seyðisfjörð.

Í byrjun sumars 2024 var félagið skráð í íslensku Kauphöllina til viðbótar við þá norsku. Framundan voru ýmis krefjandi verkefni. Síðasta haust voru seiði sett út í of kaldan sjó með þeim afleiðingum að þau drápust í hrönnum. Það leiddi til afskrifta upp á 3,5 milljarða króna fyrir félagið. Matvælastofnun kærði Kaldvík fyrir brot á dýraverndarlögum til lögreglu þar sem málið er enn í rannsókn.

Vandræðin af kalda sjónum voru ekki úr sögunni. Í febrúar fór Matvælastofnun í eftirlit til Berufjarðar eftir tölur um óvenju mikil afföll. Gerðar voru athugasemdir við að hægt gengi að fjarlægja illa særða fiska úr kvíum. Því máli lauk með 500.000 króna sekt.

Deilur um kaup á starfsemi á Djúpavogi


Um jólin var tilkynnt að Kaldvík hefði svo gott sem ákveðið að kaupa alla starfsemi hlutdeildarfélaga á Djúpavogi, það er kassaverksmiðju og laxasláturhúss. Af því spruttu miklar deilur þar sem minni hluthafar töldu að meirihlutaeigendur, það er Måsøval-fjölskyldan væri í raun að láta Kaldvík kaupa eignir af öðrum félögum hennar á of háu verði.

Stjórnarmaður sagði af sér í mótmælaskyni og Måsøval-fjölskyldan styrkti stöðu sína innan stjórnarinnar þegar eftirmaður var kjörinn. Minnihlutaeigendurnir knúðu fram aukaaðalfund og lögðu þar fram tillögu um óháða rannsókn á viðskiptunum. Sú tillaga var felld og virðist málinu þar með lokið, því tími sem minnihlutinn hafði til að höfða almennt dómsmál er útrunninn.

Meirihlutaeigendurnir hafa hafnað því að nokkuð hafi verið að og bent á að nokkrir utanaðkomandi aðilar hafi verið fengnir til að vinna verðmatið. Þeir segja að með kaupunum hafi Kaldvík fengið aukna stjórn á virðiskeðjunni sem leiði til hagræðingar með lægri kostnaði á hvert unnið kíló.

Betri staða í byrjun árs 2025 en árið áður


Gleðilegustu fréttirnar á hinum stutta starfstíma Roy-Tore eru trúlega þær að í júní var lokið við 40 milljarða króna endurfjármögnun. Tryggt var sambankalán frá DNB, Nordea, Arion og Landsbankanum upp á rúma 33 milljarða króna til fjögurra ára. Hlutafé var einnig aukið um 6,6 milljarða króna þar sem núverandi eigendur, ekki síst meirihlutaeigendurnir, komu af krafti að borðinu.

Eftir afföllinn síðasta haust kom rekstur síðasta árs illa út. Fyrsta árshlutauppgjör þessa árs leit vel út, rekstrartekjur jukust um 56% milli ára og rekstrarhagnaður þrefaldaðist. Uppskera jókst einnig um 60% milli tímabilanna.

Í tilkynningu stjórnar Kaldvíkur, sem send var út áður en Kauphöllin í Osló opnaði í morgun, eru Roy-Tore ítrekað þakkað fyrir störf sín. „Við erum þakklát Roy-Tore fyrir framlag hans til fyrirtækisins á því breytingaskeiði sem fylgdi eftir að fyrrum framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins lét af störfum,“ er haft eftir stjórnarformanninum Asle Rønning.