Efla greinir hugsanleg vindorkusvæði í Múlaþingi
Verkfræðistofan Efla fær það verkefni að greina þau svæði í Múlaþingi sem hentug geta talist til uppsetningar á vindmyllum í framtíðinni.
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur samþykkt tilboð frá verkfræðistofunni Eflu til þessa verkefnis en niðurstaðan mun nýtast sveitarfélaginu í framhaldinu við gerð aðalskipulags.
Skammt er síðan Orkusalan fékk grænt ljós Múlaþings á uppsetningu tilraunamasturs við Lagarfossvirkjun en því mastri er ætlað að mæla vindstyrk á því svæði um tveggja ára skeið. Reynist vindur nægur að þeim tíma loknum er þeim heimilt að reisa tvær 160 metra háar vindmyllur á staðnum í kjölfarið.
Við þá leyfisveitingu varð töluverð umræða meðal sveitarstjórnarfólks um aðra og hugsanlega betri kosti undir vindmyllugarða en á áberandi stað á láglendi á Úthéraði en sveitarfélagið hefur hingað til ekki látið framkvæma neinar úttektir á hvaða svæði henta og hver ekki. Niðurstöður skýrslu Efla mun breyta því.
Mynd Landsvirkjun