„Ég hélt að skriður færu ekki það hratt“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. des 2021 14:49 • Uppfært 10. des 2021 14:54
Björgunarsveitarmaðurinn Guðni Sigmundsson var einn þeirra sem átti fótum sínum fjör að launa þegar stóra skriðan féll á Seyðisfjörð þann 18. desember í fyrra. Hann fylgdist svo með skriðunni æða hjá úr því sem blessunarlega reyndist öruggt skjól.
„Við vorum búin að fylgjast vel með Búðarárfossi uppi í hlíðinni dagana á undan. Svo sjáum við að það fer að koma aur og drulla niður ána. Ég læt aðgerðastjórn vita, þeir eru þegar komnir út í dyr og svo kemur bara öll hlíðin niður.
Ég hélt að skriður færu ekki það hratt og að ég gæti hlaupið út í bíl og keyrt í burtu. En raunin reyndist allt önnur. Við urðum að taka til fótanna og enduðum á að leita skjóls við Gamla ríkið,“ er haft eftir Guðna í viðtali á heimasíðu Landsbjargar. Það er eitt þeirra sem tekið var við sjálfboðaliða og birt í tilefni af degi sjálfboðaliðans.
Þar segir Guðni að hann hafi gægst fyrir horn Gamla ríkisins og séð hvernig allt í kring fylltist af aur og leðju sem spýttust út um allt. Hann hafi talið að þetta yrði hans síðasta og ætlað að hringja í eiginkonu sína til að kveðja hana.
„Það tók mig svo langan tíma að ná að ýta á rétta takka á símanum að þegar hún loksins svaraði þá var skriðan um garð gengin og það eina sem ég gat sagt var: „Það er allt í lagi með mig. Það er allt í lagi með mig“.“
Guðni fór síðan heim og skipti um föt en tók síðan þátt í að finna út hvort allir væru óhultir. Sem betur fer var svo.
Bærinn var rýmdur í kjölfarið, en dagana á eftir var vakt á svæðinu. Aðgerðastjórn vildi hvíla Seyðfirðinga fyrst á eftir en Guðni var í hópi þeirra sem stóð vaktina, fannst erfitt að taka ekki þátt og leið betur á sínum stað.
Björgunarsveitarmenn komu síðan að málum með fylgjast með öryggi þeirra sem fóru inn á skriðusvæðið eða ferja starfsfólk út fyrir skriðuna.
„Ég er fæddur og uppalinn hér á Seyðisfirði og hér vil ég vera. Það sem stendur þó einna helst upp úr eftir þessa reynslu er allt þetta góða fólk sem tók þátt í björgunaraðgerðunum, þessi samstaða og jákvæðni og hvernig þjóðin öll brást við og studdi þétt við bakið á okkur. Við sjáum það einna best á svona tímum hvað slíkt er algjörlega ómetanlegt.“