Skip to main content

Egilsstaðablótið í Valaskjálf blásið af

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jan 2022 15:42Uppfært 05. jan 2022 15:48

Þorrablótin á landsbyggðinni eru aftur í uppnámi vegna COVID. Búið er að blása af Egilsstaðablótið á Hótel Valaskjálf en ákveðið hafði verið að halda það áður en smitfjöldinn fór í hundruð, og síðar 1.000 manns á dag.


„Ég get ekki séð hvernig hægt verði að halda Þorrablót í ár miðað við ástandið eins og það er að þróast,“ segir Þráinn Lárusson eigandi 701 Hotels. Hann bætir því við að ástandið hjá veitingamönnum á landsbyggðinni sé alveg ömurlegt fjárhagslega. Hinsvegar fáist engin svör frá stjórnvöldum annað en fyrirheit um stuðning vegna tekjutaps s.l. tveggja ára.

„Að missa þorrablótin kemur svo ofan í alveg hörmulega jólavertíð hjá okkur,“ segir Þráinn. „Það stefndi um tíma í eina bestu jólavertíð okkar lengi en COVID kom í veg fyrir það.“

Þráinn segir það eina frá stjórnvöldum séu fyrirheit um eins milljarðs kr. stuðnings til veitingamanna vegna tekjutaps undanfarin tvö ár „Þetta er svipuð upphæð og bændur fá vegna hækkana á áburðarverði,“ segir Þráinn.

Þráinn segir að stuðningurinn þyrfti að nema minnst 3,2 milljörðum kr. og að sú upphæð sem er í boði sé bara plástur á svöðusár. „Þetta kemur út eins og einhver skrípaleikur,“ segir Þráinn.

„Mér finnst það vera umhugsunarefni að hægt sé að svipta fyrirtæki öllum sínum tekjum og ætlast jafnframt til þess að það standi við allar sínar skuldbindingar.“