Skip to main content

Einar Vilhjálmsson í Heiðurshöll ÍSÍ

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. des 2021 10:18Uppfært 30. des 2021 10:20

Austfirski spjótkastarinn Einar Vilhjálmsson var í gærkvöldi tekinn inn í Heiðurshöll Íþróttasambands Íslands en þar fyrir er meðal annars faðir hans Vilhjálmur Einarsson.

Einar varð þar með tuttugasti og þriðji einstaklingurinn sem kemst í Heiðurshöllina en hann keppti mestallan sinn feril fyrir hönd Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands.

Afrek Einars í spjótkasti eru fjölmörg. Hann á ennþá Íslandsmetið í greininni sem haldist hefur óhaggað síðan árið 1992 þegar hann kastaði 86,80 metra. Þá setti hann bandarískt háskólameistaramótsmet árið 1983 í Houston í Texas með kasti upp á 86,80 metra og bandarískt háskólamet með kasti upp á 92,42 ári síðar á Teras Relays. Einar setti Norðurlandamet, 82,78 m, á Landsmóti UMFÍ á Húsavík 1987 og og Evrópumeistaramótsmet, 85,48 m, árið 1990 í Split í þáverandi Júgóslavíu.

Einar vann landskeppni Norðurlandanna og Bandaríkjanna árið 1983, var valinn í úrvalslið Evrópu til keppni í heimsbikarkeppni árið 1985 og leiddi fyrstu Grand Prix stigakeppni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) sem í dag er nefnd Gullmótaröð IAAF, sama ár frá fyrsta móti í Kaliforníu í maí og allt til ágústmánaðar og eru þá allar frjálsíþróttagreinar meðtaldar. Hann hlaut gullverðlaun á Heimsleikunum í Helsinki árið 1988. Hann vann til 10 gullverðlauna á Grand Prix stórmótaröðum IAAF og fjölda silfur og bronsverðlauna á árinum 1985, 1987, 1989 og 1991.

Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Einar komst fyrst á heimslistann yfir bestu spjótkastara heims árið 1983 og síðast árið 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og kom Íslandi á blað í frjálsíþróttum með eitt stig.

Mynd: Einar hrærður yfir heiðrinum en hann slæst í hóp 23 annarra framúrskarandi íslenskra íþróttamanna í Heiðurshöllinni. Mynd ÍSÍ