Einkaþotan áfram á Egilsstöðum

Búið er að afla upplýsinga sem skýra eignarhald portúgalskrar einkaþotu sem kyrrsett var á Egilsstaðaflugvelli í síðasta mánuði. Vélin er þó ekki enn flugfær.

Samkvæmt upplýsingum af flugsíðum var vélinni flogið frá Bastiu, höfuðborg frönsku Miðjarðarhafseyjunnar Korsíku, til Pau í Pýreneafjöllum í suðvestanverðu Frakklandi í lok ágúst. Þaðan var henni flogið til norður yfir England og lent á Egilsstöðum áður en haldið var áfram til Hafnar í Hornafirði.

Þar var vélin í vetur. Henni var flogið til Egilsstaða þriðjudaginn 19. mars og áformað að halda þaðan áfram til Evrópu. Áður en vélin lenti á Egilsstöðum barst Samgöngustofu ábending um að vélin væri ekki með gilt lofthæfisskírteini.

Samgöngustofa bannaði því strax að vélinni yrði flogið frá Egilsstöðum og sendi skoðunarmenn austur. Vélin var þó hvort sem er ekki á loftið strax þar sem eitt dekkja hennar sprakk í lendingu. Þá leiddi skoðunin í ljós að ástand vélarinnar væri óásættanlegt og hún því kyrrsett.

Jafnframt vöknuðu upp spurningar um eignarhald vélarinnar. Samkvæmt svörum Samgöngustofu þá hefur þeim nú verið svarað og telst eignarhaldið skírt. Samgöngustofa getur annars ekki veitt frekari upplýsingar um ástand vélarinnar. Samkvæmt heimildum Austurfréttar er ekki útlit fyrir að vélin fari frá Egilsstöðum á næstunni.

Samgöngustofa segir þó að fyrir liggi að loftfærniskírteinið hafi verið útrunnið í mars og hefur vísað því broti til lögreglunnar á Austurlandi. Þar fengust þær upplýsingar í vikunni að málið yrði í skoðun.

Vélin ber einkennisstafina CS-DOQ og hefur verið skráð í Portúgal. Hún er af gerðinni Cessna 551 Citation II/SP, smíðuð árið 1979 og tekur átta farþega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.