Skip to main content

Eitt smit úr sýnatöku eystra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. des 2021 12:45Uppfært 16. des 2021 12:47

Eitt Covid-smit greindist í sýnatöku á Austurlandi í gær. Viðkomandi var í sóttkví þegar sýnið var tekið.


Samkvæmt Covid-korti RÚV greindist smit á Djúpavogi í gær. Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands er það annað tilfelli, en það mun hafa verið greint við sýnatöku í Reykjavík.

Ekki er nýtt að tölum frá almannavörnum á Austurlandi og Reykjavík beri ekki saman. Getur verið um að ræða fólk með lögheimili á einum stað sem dvelst annars staðar, til dæmis námsmenn. Einhvern tíma getur tekið að leiðrétta þær tölur.

Samkvæmt nýjustu tölum af Covid.is eru 67 í einangrun eystra og 64 í sóttkví. Það er fækkun frá í gær. Samkvæmt korti RÚV eru langfestir þeirra sem eru í einangrun á Reyðarfirði og Eskifirði, 36 á fyrrnefnda staðnum en 22 á þeim síðarnefnda.

Á vegum Heilbrigðisstofnunar Austurlands verður boðið upp á opna tíma í bólusetningu eftir helgi. Bólusett verður milli klukkan 10-11 á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum á mánudag og á sama tíma í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á þriðjudag. Ekki þarf að mæta með strikamerki, nóg er að gefa upp kennitölu. Allir sem ekki hafa lokið grunnbólusetningu eru hvattir til að mæta.