Ekkert sem kemur í stað pósthúsanna
Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segir mikilvægt að Íslandspóstur dragi úr neikvæðum áhrifum þess að loka fjórum pósthúsum í sveitarfélaginu með góðri kynningu á annarri þjónustu og að hún sé alls staðar til staðar.Íslandspóstur tilkynnti í síðustu viku um lokun pósthúsanna í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Breiðdalsvík. Í erindi sem Pósturinn sendi Byggðastofnun, sem hefur eftirlit með póstþjónustu, kemur fram að reiknað sé með að loka pósthúsunum frá og með 1. júní þótt nákvæmur lokunardagur liggi ekki fyrir.
Eftir breytingarnar verður eitt pósthús eftir í Fjarðabyggð, á Reyðarfirði. Áætlað er að þjónusta hina staðina með póstboxum og af hálfu bílstjóra sem keyri út sendinga. Eitt stöðugildi leggst af við breytingarnar. Flestu starfsfólki voru því boðin störf annars staðar, þótt ekki liggi fyrir hve margt þáði það.
Erindi Íslandspósts og Byggðastofnunar vegna breytinganna voru lögð fram á fundi bæjarráðs í morgun. Ráðið bókaði að það harmaði að dregið væri úr þjónustu á þennan hátt.
Neikvæðu áhrifin verði lágmörkuð
„Mér finnst þetta ömurleg þróun. Bæjarstjóri fundaði með Íslandspósti og við höfum vakið athygli á málinu við þingmenn kjördæmisins.
Að einhverju leyti er þetta þróun í kjölfarið á fækkun bréfasendinga og þess að fram hefur komið fjölbreyttari þjónusta og aukin samkeppni. Við höfum lagt áherslu á að sú þjónusta sem veitt verður í staðinn verið kynnt vel fyrir íbúum. Við höfum bent á að á stöðum eins og Stöðvarfirði eru engin póstbox til staðar. Það verður að vera þjónusta alls staðar.
Ég hef trú á að með því megi draga úr neikvæðum afleiðingum á þennan hátt, þótt það komi ekkert í stað þeirrar persónulegu þjónustu sem pósthúsin veita,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðsins.
Aðspurður kveðst ekki ekki bjartsýnn á að ákvörðunin verði endurskoðuð. „Elsta kynslóðin hefur ekki nýtt sér póstboxin, við höfum mestar áhyggjur af henni.“
Fimmtungur sendinga sóttar á pósthús
Íslandspóstur lét Byggðastofnun vita af áformum sínum um að loka alls tíu pósthúsum á landsbyggðinni í lok febrúar. Í því erindi má finna greiningu á póstþjónustu í Grundarfirði þar sem fram kemur að 42% sendinga séu sóttar í póstboxin, 37% fari í útkeyrslu og í 21% sé náð á pósthús.
Samkvæmt lögum skal við ákvörðun um breytingu á póstafgreiðslu taka tillit til atriða eins og íbúafjölda, möguleika á að sækja þjónustu annað og fjölda afgreiðslna á ári. Íslandspóstur segir fækkun bréfa, vaxandi spurn eftir rafrænum lausnum og sparnað ástæðu breytinganna.
Íslandspóstur hefur rekið pósthúsin á Eskifirði og Fáskrúðsfirði í samvinnuvið Samkaup, á Breiðdalsvík með Landsbankanum en pósthúsið á Norðfirði var sjálfstætt.
Fjarðabyggð hefur frest til 5. apríl til að veita umsögn um áformin. Bæjarráð fól í morgun bæjarstjóra að gera það.