Endurreisn Sögufélagsins hefur gengið vel
Árið 2021 var fyrsta heila starfsár Sögufélags Austurlands frá því það var endurvakið á miðju ári 2020. Þó að félagið hafi ekki verið áberandi í daglegri umræðu, voru haldnir 5 stjórnarfundir og ýmislegt þar á dagskrá.
Þett kemur fram í yfirliti frá Sigurjóni Bjarnasyni, einum helsta hvatamanni að endurreisn félagsins en segja má að endurreisnin hafi gengið vel.
Um feril Sögufélags Austurlands og tímaritsins Múlaþings verður fjallað í næsta hefti þess, sem væntanlega lítur dagsins ljós á næstu mánuðum.
Ný ritnefnd var valin á árinu og sitja í henni Páll Baldursson Egilsstöðum, Friðrik Þorvaldsson Eskifirði og Elsa Guðný Björgvinsdóttir Egilsstöðum. Ritstjóri næsta heftis verður Unnur Birna Karlsdóttir.
Nokkuð hefur verið unnið í texta næsta heftis, en talsvert er þó eftir fyrir utan útlit og fleira. Svo virðist sem framboð af efni sé nægilegt.
„Tekist hefur samningur við Landsbókasafnið um að birta öll eldri hefti Múlaþings á vefnum www.timarit.is og má vænta þess að fyrstu 42 heftin verði þar aðgengileg snemma á árinu 2022,“ segir Sigurjón. „Leitað var eftir fjárstuðningi sveitarfélaga við endurreisn félagsins og brugðust öll sveitarfélög í Múlaþingi hinu forna vel við þeirri málaleitan.“
Ýmislegt á döfinni
Fram kemur hjá Sigurjóni að Söguslóðir Austurlands (áður Hrafnkelssögufélagið) hafa unnið að kynningu á fornsögum Austfirðinga. Á árinu leituðu Söguslóðirnar eftir samruna við Sögufélagið og hefur sameining nú gengið í gegn. Þar með skuldbindur Sögufélagið sig til að halda áfram því starfi sem Söguslóðir Austurlands hafa unnið að.
Á Egilsstöðum hefur verið stofnað Fræðasetur Austurlands – Sigfúsarstofa, í minningu Sigfúsar Sigfússonar þjóðsagnasafnara, sem ætlað er að vera miðstöð fræða og sögu á Austurlandi. Unnur Birna Karlsdóttir er fulltrúi Sögufélagsins í stjórn stofnunarinnar.
Aðalfundur Sögufélags Austurlands var haldinn þann 23. október sl. og mættu þar um 20 manns, auk þess sem fjærstaddir áttu þess kost að fylgjast með á netinu.
Á fundinum flutti Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur erindi um fornleifauppgröft sem hún hefur átt þátt í á landi Fjarðar í Seyðisfirði. Hefur þar fundist mikið magn minja sem bíður frekari rannsóknar.
Skúli Björn Gunnarsson sagði frá samstarfsverkefnum Gunnarsstofnunar við Skota og Norðmenn um að nýta nýjustu tækni við að lýsa inn í fortíðina. Má nú þegar sjá vísi að þessu á Skriðuklaustri þar sem hægt er að skyggnast um í miðaldaklaustrinu í þrívídd.
Nokkrar umræður urðu á fundinum um nafn tímaritsins Múlaþings og komu fram efasemdir um að það gæti haldið nafni sínu þar sem eitt sveitarfélag á Austurlandi hefði tekið sér þetta nafn án þess að ná yfir það landssvæði sem tilheyrði hinu forna Múlaþingi. Málinu var vísað til stjórnar.
Ennfremur fékk stjórnin það verkefni í hendur að velja félaginu merki, sem talið er mikilvægt upp á kynningu á starfseminni.
Hjörleifur Guttormsson vinnur nú að ævisögu forföður síns, séra Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað, sem var áberandi persóna í sögu Austurlands á 19. öld. Lét Sigurður sig skipta stjórnmál, náttúruvísindi og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga auk þess sem hann var með merkari prestum Austfirðinga. Sögufélagið hefur samþykkt að veita Hjörleifi stuðning við útgáfu bókarinnar, svo sem með kynningu, dreifingu og sölumennsku eftir því sem kraftar félagsins leyfa.
Mynd: Við yfirtöku Sögufélagsins á eldri birgðum Múlaþings var gerð nákvæm talning og reyndust vera 4.999 til á lager. Nokkra árganga vantar þó alveg inn í, en fljótlega verður hægt að fletta upp á öllu efninu á www.timarit.is