Endurskoða áætlanir um bílastæði eftir að hafa lengt tímann fyrir gjaldheimtu

Innan Isavia Innanlandsflugvalla ehf. er hafin endurskoðun á áætlunum sem gerðar voru um innheimtu á bílastæðagjöldum og framkvæmdum við stæðin í kjölfarið. Gjaldtaka hófst í vikunni en um leið var lengdur sá tími sem leggja má í stæði án greiðslu.

Gjaldtökunni hefur verið mótmælt síðan fyrst var áætlað að leggja hana á í janúar og aftur eftir endurskoðun í maí. Milli þess var sá tími sem frítt átti að vera lengdur úr 15 mínútum í fimm klukkutíma.

Á mánudag, daginn áður en gjaldtakan hófst, tilkynnti Isavia Innanlandsflugvellir að ekki yrðu innheimt gjöld fyrir stæði fyrr en að 14 tímum liðnum. Var það meðal annars gert eftir tilmæli fjármálaráðherra um að fólki sem sækti læknisþjónustu til Reykjavíkur og færi fram og til baka sama dag þyrfti ekki að greiða fyrir stæði.

Í aðdraganda gjaldtökunnar hafa stjórnendur fyrirtækisins bent á gjaldinu sé ætlað að standa undir framkvæmdum við framkvæmdir á bílastæðunum. Austurfrétt óskaði eftir upplýsingum um hvaða tekjur væru áætlaðar af bílastæðunum, hvaða áhrif lenging tíma án gjalds hefði og framkvæmdaáætlanir.

Í skriflegu svari Isavia Innanlandsflugvalla segir að gera megi ráð fyrir að breytingar á gjaldfrjálsum tíma hafi áhrif á úr hvaða fjármunum sé að spila til framkvæmda. Þær áætlanir séu því nú í skoðun.

Trúnaður um þjónustusamninga


Eftir 14 tíma kostar stæðið 1.450 krónur á sólarhring. Gjaldið lækkar niður í 1.350 krónur á dag eftir viku og í 1.200 krónur eftir tvær vikur. Greiða á í gegnum snjallforrit AutoPay eða Parka. Sé það ekki gert er sendur reikningur. Þá bætast við 1.490 kr. í þjónustugjald.

Austurfrétt óskaði eftir upplýsingum um hlutdeild greiðslufyrirtækjanna í gjaldheimtunni af bílastæðunum. Í svari Isavia segir að trúnaður gildi um þá samninga sem gerðir hafa verið vegna bílastæðakerfisins á innanlandsflugvöllunum.

Gjaldtakan á við um flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík, þrjá af þeim ellefu flugvöllum sem Isavia Innanlands ehf. rekur. Reglurnar eru hinar sömu á Egilsstöðum og Akureyri en í Reykjavík er bílastæðunum skipt í tvennt. Á öðru þeirra er frítt að leggja í 15 mínútur en 45 mínútur á hinu.

Varaflugvallagjald ætlað í flugöryggi


Þann 1. nóvember var byrjað að innheimta varaflugvallagjald, 200 krónur á hvern fluglegg til og frá öllum innanlandsflugvöllum. Er það sérstaklega ætlað til að bæta aðstöðu á flugvöllunum þremur sem eru millilandaflugvellir og varaflugvellir fyrir Keflavík.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Austurfrétt hefur aflað undanfarna daga var varaflugvallargjaldinu ætlað að tryggja fjármögnun til framkvæmda sem snúa að flugöryggi á varaflugvöllunum, það er að ákveðinn fjöldi véla geti lent þar ef Keflavíkurflugvöllur lokast. Er þar átt við framkvæmdir við flugbrautirnar og mögulega flugstöðvarnar sjálfar en ekki hinu megin við, svo sem við bílastæðin.

Leiðrétting: Upphaflega var sagt að byrjað yrði að innheimta varaflugvallagjaldið 1. nóvember næstkomandi. Hið rétta er að byrjað var að innheimta það 1. nóvember 2023.

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.