Engar auðveldar lausnir fyrir Stöðvarfjörð
Forsvarsmenn í Fjarðabyggð munu fara þess á leit við samstarfsaðila á borð við leigufélagið Bríeti og Brák íbúðafélag að þau horfi til þess að byggja íbúðarhúsnæði á Stöðvarfirði eins og þau gera annars staðar í sveitarfélaginu.
Svo segir meðal annars í svari fjármálastjóra Fjarðabyggðar við bréfi sem Íbúasamtök Stöðvarfjarðar sendu sveitarfélaginu fyrir nokkru og lesa má um hér.
Þar kvörtuðu heimamenn yfir miklum húsnæðisskorti í bænum og litlum áhuga sveitarfélagsins að ráða á því bót. Sá skortur væri að hamla því að fólk gæti flust til Stöðvarfjarðar og eflt byggðina en Stöðvarfjörður er eini bærinn á Austurlandi sem er hluti af byggðaverkefninu Brothættar byggðir. Meginmarkmið þess verkefnis er að stöðva og snúa við fólksfækkun í smærri bæjum landsins.
Í bréfinu kemur fram að sveitarfélagið hafi sýnt sveigjanleika á Stöðvarfirði og víðar til dæmis með góðu framboði lausra lóða, miklum afsláttum á gatnagerðargjöldum og sé reiðubúið að veita stofnstyrki eða annan stuðning til uppbyggingar íbúða fyrir eldri borgara. Sveitarfélagið sjálft geti þó ekki staðið fyrir íbúðahúsabyggingum.
Þá segir fjármálastjórinn, Snorri Styrkársson, að þess beri hvergi merki í gögnum byggingar- og skipulagsfulltrúa að eftirspurn sé eftir lóðum á Stöðvarfirði eins og Íbúasamtökin segjast hafa tilfinningu fyrir. Þá sé jafnframt útilokað fyrir sveitarfélagið að stýra beiðnum eða erindum fasteignaeigenda um breytingar á íbúða- eða atvinnuhúsnæðum í gistirými en Íbúasamtökin í bréfi sínu bentu á að 22 prósent húsnæðis á Stöðvarfirði væru eingöngu nýtt sem sumarhús eða til skammtímaleigu til ferðafólks.
Lítt spennandi lóðaframboð
Aðspurður sagðist Bjarni Stefán Vilhjálmsson, einn forsprakka Íbúasamtakanna, ekki hafa séð svarbréf Fjarðabyggðar en eftir að blaðamaður las upp helstu punktana sagði hann viðbrögð sveitarfélagsins koma lítið á óvart.
„Þetta bréf þarna um daginn sendum við nú meira til að vekja máls á hlutunum og opna umræðina en áttum minna von á einhverjum breytingum þannig. Það var svo sem vitað að sveitarfélagið getur ekki mikið haft áhrif á hvernig eigendur nota hús sín hér í bænum eða annars staðar. Á hinn bóginn þá er nú ólíklegt að fólk sem áhuga hefur á að setjast hér að labbi beint inn til skipulagsfulltrúans til að ræða lóðamál. Það er nærri lagi að við hér heimamenn fréttum af slíkum áhuga og auðvitað er skiljanlegt að fólk vill kannski byrja á að leigja ef það er að koma hingað fyrst sinni með fjölskylduna í stað þess að festa sig strax í lóðakaupum og byggja hús í kjölfarið.“
Bjarni gerir þó athugasemd við þá fullyrðingu að nóg framboð sé á lóðum á Stöðvarfirði. „Það má nú deila um hvað þeir segja vera nægt framboð af lóðum. Það má auðveldlega sjá í kortasjá Fjarðabyggðar hversu margar lóðir standa hér lausar í bænum. Þær eru aðeins þrjár talsins og ekki á hentugasta stað heldur því allar eru þær niður við höfnina.“
Kannski má biðla til húseigenda?
Staðan á Stöðvarfirði var rædd á síðasta fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar. Þar tóku meðal annars til máls þau Þuríður Lilly Sigurðardóttir og Elís Pétur Elísson úr Framsóknarflokki og Ragnar Sigurðsson úr Sjálfstæðisflokki.
Bæði Elís og Ragnar töldu miður hve stór hluti íbúða á Stöðvarfirði væri í takmarkaðri notkun sem sumarhús eða skammtímaleiguíbúðir. Elís sagði vandamálið stórt því þetta væri raunin mun víðar í fámennum bæjarkjörnum í öllu landinu en ekkert gæfi sveitarfélaginu heimildir til að setja neinar reglur um fasta búsetu.
Ragnar sagði stöðuna sláandi og engin spurning að svo mikill fjöldi húsnæðis sem aðeins væri nýtt hluta árs stæði byggðinni sannarlega fyrir þrifum. Hann taldi vænlegast til árangurs og breytinga að biðla beinlínis til umræddra húseigenda um að standa með bænum og reyna að tryggja betri nýtingu og þá helst til lengri tíma. Margir góðir hlutir ættu sér stað á Stöðvarfirði og ef tækist að fá eigendur í lið með heimamönnum og koma hreyfingu á markaðinn gæti það skilað árangri fljótt og vel.
Sjálf harmaði Þuríður að ekki hefði tekist að byggja upp á Stöðvarfirði eins og annars staðar.
Skjáskot úr lóðakortasjá Fjarðabyggðar fyrir Stöðvarfjörð. Lausar lóðir í bænum eru þrjár talsins samkvæmt skoðun fyrr í dag og allar á eða við hafnarsvæðið (grænlituð svæði.) Skjáskot Fjarðabyggð.is